Leikur KA og ÍA hefst klukkan 16.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.
KA liðið steinlá 5-0 í síðasta leik sínum á móti Stjörnunni og hefur aðeins unnið einn af fyrstu átta deildarleikjum sumar. Fyrir vikið situr liðið í fallsætinu.
Skagamenn eru með tíu stig, þremur sætum ofar og með tvöfalt fleiri stig en Norðanmenn.
Stuðningsmenn KA ættu samt að vera bjartsýnir á góða útkomu úr þessum leik enda hefur gengið mjög vel á móti ÍA undanfarin ár.
KA hefur unnið fjóra síðustu innbyrðis leiki liðanna í efstu deild og skorað í þeim ellefu mörk gegn engu. Í viðbót vann KA 2-1 sigur á ÍA í Lengjubikarnum i vetur.
Síðustu þrír leikir liðanna í Bestu deildinni hafa endað með 3-0 sigri KA. Nökkvi Þeyr Þórisson (2) og Hallgrímur Mar Steingrímsson skoruðu í sigrinum í ágúst 2022, þeir Daníel Hafsteinsson Elfar Árni Aðalsteinsson og Jakob Snær Árnason skoruðu mörkin í sigrinum í maí 2022 og í 3-0 sigrinum i ágúst 2021 þá skoruðu þeir Bjarni Aðalsteinsson, Jakob Snær og Hallgrímur Mar mörkin.
Skagamenn fögnuðu síðast sigri á móti KA 14. júní 2020 þegar þeir unnu 3-1 sigur upp á Skaga. Þeir unnu hins vegar síðast fyrir norðan fyrir næstum því tuttugu árum eða 8. ágúst 2004.
Í sigrinum 2020 þá skoruðu Stefán Teitur Þórðarson (2) og Tryggvi Hrafn Haraldsson mörk Skagamenn en í leiknum fyrir næstum því tuttugu árum þá skoruðu Ellert Jón Björnsson (2), Stefán Þór Þórðarson, Þorsteinn Gíslason og Gunnlaugur Jónsson mörkin.
ÍA hefur nú leikið fimm leiki í röð í efstu deild fyrir norðan án þess að fagna sigri.