Þetta kemur fram í tilkynningu á vef HS Veitna. Framkvæmdanefnd vegna málefna Grindavíkur, HS Veitur og bæjarstjórn Grindavíkur, fundaði í gær um það hvernig best væri að tryggja rafmagn í bænum eftir að rafmagn fór af þann 29. maí.
Tengingin með takmarkaða aflgetu
„Til að koma rafmagni aftur á Grindavík er ætlunin að leggja varaleið frá Svartsengi til Grindavíkur. Lausnin felst í að nýta fyrirliggjandi strengi HS Orku og HS Veitna á þessari leið og að auki leggja nýjan streng um 4,3 kílómetra niður svokallaðan niðurdælingarveg. Enn fremur þarf að leggja um 900 metra af jarðstreng fram hjá nýja hrauninu sem fór yfir Nesveg, í stað þess strengs sem varð þar undir hrauni,“ segir í tilkynningunni.
Tekið er fram að þessi varatenging hafi takmarkaða aflgetu en að hún muni standa undir þeirri rafmagnsnotkun sem hefur verið í bænum síðustu mánuði. Á meðan á framkvæmdunum stendur munu tvær öflugar varavélar frá Landsneti sjá bæjarfélaginu fyrir rafmagni til að knýja atvinnulíf í Grindavík þar til yfirstandandi framkvæmd er lokið.