Magdeburg var búið að vinna þýsku úrvalsdeildina, bikarkeppnina og HM félagsliða og gat því unnið fjórfalt á tímabilinu. En það gekk ekki eftir.
Leikurinn gegn Álaborg var gríðarlega jafn en aldrei munaði meira en einu marki á liðunum, fyrr en undir lokin.
Janus Daði Smárason jafnaði í 25-25 en Mads Hoxer Hangaard kom Álaborg aftur yfir, 25-26. Næstu sókn þýska liðsins lauk svo með því að Niklas Landin varði skot frá Ómari. Hoxer Hangaard kom svo dönsku meisturunum tveimur mörkum yfir í fyrsta sinn, 25-27.
Ómar minnkaði muninn í 26-27 úr vítakasti. Álaborg tók í kjölfarið leikhlé og eftir það skoraði Sebastian Barthold markið sem tryggði liðinu sigurinn, 26-28.
Ómar var allt í öllu Magdeburg og skoraði tíu mörk. Janus skoraði þrjú mörk og Gísli Þorgeir Kristjánsson tvö.
Matthias Musche og Felix Claar skoruðu fjögur mörk hvor fyrir Magdeburg en slök markvarsla reyndist liðinu dýr í dag. Sergey Hernández varði einungis níu skot (24 prósent). Á meðan vörðu markverðir Álaborgar, Landin og Fabian Norsten, samtals tólf skot (32 prósent).
Hoxer Hangaard skoraði átta mörk fyrir Álaborg og Barthold sex. Thomas Arnoldsen og Mikkel Hansen gerðu fimm mörk hvor.
Í seinni undanúrslitaleiknum, sem hefst klukkan 16:00, mætast Kiel og Barcelona.