„Í Húsdýragarðinum á Hraðastöðum eru öll möguleg íslensk húsdýr sem eru mjög hænd mannfólkinu og var mjög notaleg stemming á svæðinu,“ sagði Bragi Guðmundsson, lestarstjóri Bylgjulestarinnar. Með honum í för á laugardaginn var Agnes Ýr Arnarsdóttir.
„Þær Linda og Sara kíktu til okkar í Bylgjubílinn og sögðu okkur frá tilurð garðsins fallega sem átti í upphafi bara að vera vinna í eitt sumar. Leikhópurinn Vinir setti upp fjörlega leiksýningu í garðinum og boðið var upp á andlitsmálningu fyrir krakkana.“
Boðið var upp á dynjandi músík í Bylgjubílnum. „Tónlistarkonan Fríða Hansen kom til okkar og taldi í sumarsmellinn sinn „Það var komið sumar“ sem var svakalega viðeigandi vegna tíðarfarsins vikuna á undan. Þau Bjartmar Guðlaugsson og María Helena tóku líka tvö lög við góðar undirtektir.“
Að lokum var slegið á þráðinn til London þar sem Egill Ploder og Kristín Ruth voru í sigurvímu eftir leikinn á móti Englendingum. „Þannig að þetta var góður dagur í Mosfellsdalnum.“
Um næstu helgi verður Bylgjulestin á 80 ára afmæli lýðveldisins á Þingvöllum.
Næstu stopp Bylgjulestarinnar:
- 15. júní – Þingvellir
- 22. júní - Eyrarbakki
- 29. júní – Borgarnes
- 6. júlí – Akureyri
- 13. júlí – Selfoss
- 20. júlí – Hljómskálagarðurinn í Reykjavík
- 27. júlí - Hafnarfjörður