Morgunblaðið fjallar um málið í dag. Að mati meirihlutans fylgir því ákveðin rekstraráhætta að viðhafa núverandi fyrirkomulag, þar sem framlög til RÚV hækka samkvæmt sérlögum og útvarpsgjald er ákveðið einu sinni á ári. Þannig séu engin tengsl á milli lögbundinnar hækkunar framlaga og útgjalda.
„Meirihlutinn telur skynsamlegt að skoðað verði hverjir séu kostir og gallar þess að RÚV verði hefðbundin A-1 ríkisstofnun og að framlög til stofnunarinnar verði ákveðin í fjárlögum hvers árs,“ segir í álitinu.
Að lokum gerir meirihlutinn fjórar breytingatillögur á fjármálaáætlun. Í fyrsta lagi að lögreglan og Landhelgisgæslan verði undanþegnar aðhaldi, í öðru lagi að dómstólar fái svipaða undanþágu, í þriðja lagi að sendiráð verði opnað á Spáni og í fjórða lagi að fjármagn verði sett í að hefja uppbyggingu í Skagafirði í tengslum við Háskólann á Hólum.