„Það er þetta viðvarandi ólögmæti,“ segir Bergþór og þá skipti ekki máli hvort sé litið til ákvarðana Svandísar, afstöðu umboðsmanns Alþingis til hennar ákvarðana, tímabilið þar sem Katrín sinnti verkum Svandísar eða til þess þegar Bjarkey hefur nú tekið við. Bergþór ræddi við Heimi Má Pétursson fréttamann í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
„Það kristallast kannski í því að Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra notar það sem rökstuðning fyrir útgáfu leyfisins þegar á endanum hún gefur það út, gagnslaust í raun leyfi, að henni hafi aldrei staðið neitt annað til boða á grundvelli þeirra laga sem eru í gildi,“ segir Bergþór og að ráðherrar Vinstri grænna hafi haft nægan tíma í matvælaráðuneytinu til að leggja fram lagabreytingartillögur á lögunum.
Undirliggjandi samtöl
Heimir spyr Bergþóri hvort að mögulega sé ekki samþykki fyrir slíkum breytingum í ríkisstjórn en Bergþór segir að það hafi komið fram að þegar ríkisstjórnin var „skrúfuð aftur saman“ eftir brotthvarf Katrínar Jakobsdóttur að það hafi verið rætt og ákveðið að hvalveiðar yrðu ekki stöðvaðar.
„Þannig það er augljóst að það eru undirliggjandi samtöl þarna, þó það sé ekki skrifað með beinum hætti í stjórnarsáttmála, sem hljóta að gera þingflokk Sjálfstæðisflokks ósáttan og ætti að gera þingflokk Framsóknarflokks það sömuleiðis.“
Bergþór var á leið á fund með öðrum þingflokksformönnum þar sem átti að ræða þingmálalista ríkisstjórnarinnar fyrir þinglok. Hann segist hóflega bjartsýnn á listinn sé tilbúinn. Stjórnarflokkarnir hafi haldið þinginu í gíslingu í þrjár vikur en þau hljóti að færast nær dag frá degi. Á fundi formanna á einnig að ræða hvort vantrauststillagan verði rædd á þingi á morgun eða á fimmtudag.
Ekki liggur fyrir hvort allir þingmenn stjórnarflokka ætli sér að styðja við matvælaráðherra og kjósa gegn henni en þingmenn Vinstri grænna og Framsóknar hafa þó gefið út að þeir ætli að gera það. Þingflokkur Sjálfstæðisflokks á eftir að ræða málið en í það minnsta tveir þingmenn flokksins, Teitur Björn Einarsson og Jón Gunnarsson, hafa talað skýrt gegn ákvörðunum ráðherra. Ef einhverjir þingmenn flokksins greiða atkvæði með tillögunni myndi það eflaust hafa einhver áhrif á stjórnarsamstarfið.