Vefur Morgunblaðsins, mbl.is, lá niðri frá fimmta tímanum síðdegis í gær og til um átta. Þá gátu starfsmenn ekki unnið í ritstjórnarkerfi félagsins og útsendingar útvarpsstöðvarinnar K100 lágu niðri.
Í frétt mbl.is er haft eftir Úlfari Ragnarssyni, forstöðumanni upplýsingatæknisviðs Árvakurs, að árásin sé mjög alvarleg. Öll gögn hafi verið tekin og dulkóðuð.
„Staðan er grafalvarleg og eiginlega eins slæm og hún getur orðið,“ er haft eftir Úlfari.
Samkvæmt Úlfari stendur rússneski tölvuþrjótahópurinn Akira að baki árásinni, en hann er sagður hafa staðið að baki sambærilegum árásum á Háskólann í Reykjavík og Brimborg. Útlit sé fyrir að hakkararnir hafi komist inn í kerfi Árvakurs fyrr í mánuðinum og látið til skarar skríða í gær.