Skoðun

Ör­yrkjar í fjötrum fá­tæktar

Svanberg Hreinsson skrifar

Enginn velur það hlutskipti í lífinu að veikjast alvarlega, slasast eða fæðast með fötlun sem hindrar fulla atvinnuþátttöku. Það er ómannúðlegt að dæma þá sem missa heilsuna til að lifa því sem eftir er ævinnar í fátækt. Hæstu mögulegu greiðslur almannatrygginga, 381.065 kr. eftir skatt, fær aðeins lítill hópur öryrkja. Meðalgreiðslur í apríl voru 328.000 kr. fyrir skatt samkvæmt TR. Ljóst er að tæpar 300.000 kr. í ráðstöfunartekjur eftir skatt duga engan veginn til framfærslu á Íslandi nú til dags. Samkvæmt nýrri skýrslu Vörðu, sem unnin var fyrir ÖBÍ, getur meiri hluti fatlaðs fólks ekki mætt óvæntum útgjöldum án lántöku, að minnsta kosti þeir sem hafa enn lánstraust.

Leigumarkaðurinn líkist stríðssvæði þar sem barist er um hverja einustu íbúð og verðið hækkar um hver mánaðarmót. Þá hefur matvöruverð hækkað mjög mikið á undanförnu. Fólk getur ekki lifað endalaust á vatni og núðlum, ekki síst foreldrar með börn á framfæri sínu. Rannsóknir sýna að fatlað fólk neitar sér oft um nauðsynjar eins og heilbrigðisþjónustu og jafnvel lágmarksþáttöku í félagslífi vegna fjárskorts. Öryrkjar á Íslandi upplifa myrkan veruleika þar sem örvænting og svartnætti ríkir, ómöguleg fjárhagsstaða og samfélagsleg útskúfun virðist vera það sem framtíðin hefur upp á að bjóða.

Fatlað fólk þráir ekkert heitar en að fá tækifæri til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu, án þess að vera hlekkjað niður af skerðingum og takmörkunum sem kæfa drauma þeirra og þrár. Tímabært er að hætta þessu fjárhagslega ofbeldi sem fatlað fólk þolir dag eftir dag og tryggja þeim loks skilyrði til að lifa lífi þar sem reisn þeirra og mannhelgi er virt. Aðeins þannig getum við sagt að við búum í réttlátu og mannúðlegu samfélagi.

Mahatma Gandhi sagði „sannasti mælikvarði hvers samfélags er hvernig það kemur fram við viðkvæmustu meðlimi sína.“

Höfundur er varaþingmaður Flokks fólksins.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×