Skoðun

Fölsk vernd fæðingarorlofslaga fyrir verðandi feður?

Erna Guðmundsdóttir skrifar

Hjá ferðaþjónustufyrirtæki hér á landi, var starfsmanni sem hafði nýlega sagt frá því að hann ætti von á barni, sagt upp störfum. Um er að ræða verðandi föður og á fundinum þar sem honum var afhent uppsagnarbréfið sagði hann að þetta gæti ekki verið lögleg uppsögn þar sem hann væri verndaður skv. fæðingarorlofslögum. Svar fyrirtækisins var að þessi vernd gildi einungis fyrir konur. Túlkun á vernd fyrir karl samkvæmt fæðingorlofslögunum er sú að vernd fyrir verðandi föður gildi einungis þegar hann hafi tilkynnt formlega, með skriflegum hætti um hvernig hann ætli að haga töku fæðingarorlofs.

Samkvæmt þessari túlkun þá er vernd verðandi föður engin fyrr en hann er búinn að tilkynna með formlega, skriflegum hætti um töku fæðingarorlofs. Vinnuveitanda virðist því vera í lófa lagið að segja verðandi föður upp strax og hann hefur sagt þær gleðifréttir á vinnustaðnum að hann eigi von á barni. Í mörgum tilvikum segja verðandi foreldrar frá því að þeir eigi von á barni eftir tólftu viku. Á þeim tímapunkti eru foreldrarnir oft ekki búnir að taka ákvörðun um hvernig þau ætla að haga töku fæðingarorlofs.

Ef túlkun umrædds ferðaþjónustufyrirtækis er rétt þá hefur vinnuveitandi mjög rúman tíma til að segja verðandi föður upp störfum en frá því að verðandi faðir tilkynnir yfirmanni sínum og samstarfsfólki í gleði sinni að hann eigi von á barni og þar til hann afhendir formlega, skriflega tilkynningu um tilhögun fæðingarorlofs geta liðið nokkrar vikur og skapast því stór gluggi fyrir vinnuveitanda að segja verðandi föður upp án nokkurra eftirmála. Fyrirtæki virðast því hafa frítt spil til að segja verðandi föður upp sé þessi túlkun rétt.

Hver er vernd verðanda feðra þegar um slík fyrirtæki er að ræða ? og spyr ég er um að ræða falska vernd fæðingarorlofslaga fyrir verðandi feður?

Höfundur er lögmaður og eigandi Magistra ehf. lögfræðiþjónusta og ráðgjöf.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×