Skúli Jónsson, stöðvarstjóri hjá lögreglunni í Garðabæ, staðfestir þetta í samtali við Vísi. „Jú jú það var gengið þarna um allt húsið það má segja það að það hafi verið gengið berserksgang,“ segir hann og bætir við að þeir sem bera sök á eignaspjöllunum fari enn huldu höfði.
Lögreglan rannsakar nú atvikið en Skúli biðlar til þeirra sem kunna að hafa einhverjar upplýsingar um málið að hafa samband við lögregluna.

Ungmenna keimur af málinu
Athygli var vakin á málinu á Facebook-hóp fyrir íbúa í Garðabæ en þar er tekið fram að slökkvitækjum hafi verið hent í gegnum rúður klaustursins sem liggja nú fyrir utan húsið.
Einn íbúi í grennd við klaustrið sagðist hafa séð hóp af ungmennum á mótorhjólum og skellinöðrum hjá húsinu undanfarin kvöld og að í gærkvöldi hafi verið tuttugu manna hópur við húsið.

Skúli segir að hópamyndun ungmenna við Klaustrið sé ekki algeng en tekur þó fram „að málið beri keim af ungmennum“. Hann hvetur þá sem kunna að hafa átt hlut að máli eða orðið vitni að eignaspjöllunum að hafa samband við lögreglu.
Engu stolið
Engu var stolið úr klaustrinu en húsið stendur að mestu autt núna. Garðabær auglýsir núna eftir einstaklingum eða fyrirtækjum sem hafa áhuga að taka þátt í samstarfsverkefni um kaup eða leigu, endurbætur, viðhald og rekstur á húsnæðinu.

„[Klaustrið] var áður í eigu Sankti Jósefssystra. Í kaupsamningi Garðabæjar og systranna er kvöð, sem gildir til ársins 2028, um að húsnæðið verði nýtt fyrir starfsemi í þágu aldraðra eða annarrar sambærilegrar starfsemi á sviði mannúðar, heilbrigðismála, barna eða unglinga,“ segir í tilkynningu á vefsíðu Garðabæjar.
