Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var fjallað um skýrslu sem starfshópur á vegum dómsmálaráðuneytisins vann. Markmiðið var að kanna réttarúrbætur á sviði happdrættismála.
Meðlimir hópsins voru ósammála um niðurstöður og formaður hópsins skilaði tillögum einn. Forsvarsmenn fyrirtækjanna sex með sérleyfi á veðmálamarkaði skiluðu saman inn séráliti í staðinn.
Bryndís Hrafnkelsdóttir, forstjóri HHÍ og ein þeirra sem skiluðu séráliti, segist ekki taka tekið þær úrbætur sem formaðurinn vildi gera.
„Formaðurinn, hann er í rauninni að koma með tillögur að séríslenskum lögum. Ætlar sér að bylta núverandi kerfi í staðinn fyrir að horfa til Evrópu, nágrannalanda okkar, á þá aðferðarfræði sem þeir hafa farið,“ segir Bryndís.
Meðal þess sem formaðurinn telur rétt að gera er að koma lögum á ólöglega veðmálastarfsemi á erlendum síðum svo þær geti starfað hér með leyfi frá stjórnvöldum. Bryndís getur ekki tekið undir það. Það þurfi þó að bregðast við gríðarlegri aukinni notkun Íslendinga á erlendu síðunum.
„Það verða að koma breytingar. Það eru allir að tapa í dag. Nema þessi ólöglegu netspilafyrirtæki,“ segir Bryndís.
Hún skilur að vissu leyti hvers vegna ráðuneytið er ekki búið að ráðast í breytingar á lögum um happdrætti, sem hafa staðið óbreytt síðan 2011.
„Það eru mörg stór mál þar á borði og ég veit að happdrættismarkaðurinn er ekki í forgangi. En ég skil samt ekki, eftir svona langan tíma og svo marga ráðherra eins og ég hef hitt síðan ég byrjaði, að það sé ekki hægt að stíga lítil skref í einu. Það þarf ekki endilega að taka allan markaðinn og umturna honum, bara lítil skref. Smá breytingar,“ segir Bryndís.
HHÍ vill fá að bjóða upp á fjárhættuspil á netinu.
„Að sjálfsögðu viljum við koma þeim vörum á netið og taka þátt í 21. öldinni. Við erum auðvitað ekki að fá tækifæri til þess núna,“ segir Bryndís.