„Nú standa yfir Írskir dagar á Akranesi og venju samkvæmt talsvert af fólki sem heimsækir bæinn. Alltaf eru einhverjir sem fara út af sporinu þegar margir eru að skemmta sér,“ segir í tilkynningu lögreglunnar á Vesturlandi á Facebook.
Sem dæmi um helstu verkefni lögreglu um nóttina má nefna að fjórir ökumenn eru grunaðir um ölvunarakstur og einn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Einn þeirra bakkaði á annað ökutæki og var lögreglan því kölluð á vettvang.
Þrisvar sinnum brutust út áflog á milli manna en að sögn lögreglu eru meiðsli lítil sem engin. Þá hafði lögreglan afskipti af þremur ölvuðum ungmennum sem var komið í hendur forráðamanna.
Enginn gisti í fangageymslu í nótt.