Myndbandið er að sjálfsögðu grín en þar talar Kjartan Henry Finnbogason, aðstoðarþjálfari karlaliðs FH, um þá „byltingarkenndu“ hugmynd að spila fótbolta á náttúrulegu grasi, eins og FH-ingar gera. Myndbandið má sjá hér að neðan.
Ætla má að myndbandið sé ákveðið svar við til að mynda orðum Halldórs Árnasonar, þjálfara Breiðabliks, sem eftir tap í Kaplakrika á dögunum talaði um að grasvöllurinn væri „þungur og erfiður“. Í myndbandinu segir Kjartan:
„Mér bara datt þetta í hug þegar ég kom hingað í fyrra og ég talaði við mennina sem stjórna hérna, og auðvitað Heimi [Guðjónsson, þjálfara], og þeir tóku ótrúlega vel í þetta. Að spila á svona venjulegu grasi. Já og svo sýnir félagið ákveðið hugrekki að taka á móti þessum hugmyndum að spila á náttúrulegu grasi,“ segir Kjartan.
Síðan má sjá leikmenn FH bera lóð inn á Kaplakrikavöll, líkt og Bakkabræður endurfæddir:
„Við erum að vinna í því að þyngja völlinn,“ segir Kjartan og bætir við:
„Ég er viss um að hann er að verða þyngri og þyngri með hverri vikunni og mánuðunum sem líða.“
Stórleikur er í Kaplakrika klukkan 18 í dag þegar FH tekur á móti Breiðabliki, efsta liði Bestu deildar kvenna, og á morgun mætast svo FH og KA í Bestu deild karla. Gestirnir eru vanir því að spila sína heimaleiki á gervigrasi en ekki er von á plasti í Hafnarfjörðinn:
„Við ætlum að halda áfram með þessa klikkuðu hugmynd að vera á eðlilegu grasi,“ segir Kjartan.