Gareth Southgate hætti sem þjálfari enska karlalandsliðsins í gær og enskir fjölmiðlar eru nú uppfullir af fréttum um hver gæti tekið við starfi hans.
The Independent greinir frá því að Guardiola sé efstur á óskalista enska knattspyrnusambandsins og það sé reiðubúið að bíða eftir að samningur Spánverjans við City renni út á næsta ári.
Enska knattspyrnusambandið myndi þá ráða bráðabirgðaþjálfara sem myndi halda sætinu heitu fyrir Guardiola meðan hann klárar samninginn við City.
Meðal annarra sem hafa verið orðaðir við starf landsliðsþjálfara Englands eru Eddie Howe, Steven Gerrard, Frank Lampard, Graham Potter og Sarina Wiegman.
Næsti leikur enska landsliðsins er gegn Írlandi, sem Heimir Hallgrímsson þjálfar, í B-deild Þjóðadeildarinnar 7. september næstkomandi.