Enski boltinn

Nottingham Forest í undan­úr­slit eftir vítaspyrnukeppni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Callum Hudson-Odoi var einn af fjórum leikmönnum Forest sem skoraði úr sinni spyrnu.
Callum Hudson-Odoi var einn af fjórum leikmönnum Forest sem skoraði úr sinni spyrnu. Mike Hewitt/Getty Images

Nottingham Forest komst áfram í undanúrslit FA bikarsins með sigri gegn Brighton í vítaspyrnukeppni.

Leikurinn var mjög rólegur og lengst af skapaði hvorugt lið sér hættulegt marktækifæri. Forest menn héldu að þeir væru að fá vítaspyrnu um miðjan seinni hálfleik, en myndbandsdómarinn sneri þeirri ákvörðun við.

Leiknum lauk því með markalausu jafntefli og haldið var í framlengingu. Þar kom Brighton boltanum í netið, rétt fyrir leikslok, en markið fékk ekki að standa vegna rangstöðu.

Haldið var þá í vítaspyrnukeppni, sem Forest menn hafa líklega verið ánægðari með enda búnir að vinna átta af síðustu níu vítaspyrnukeppnum sínum meðan Brighton hafði tapað síðustu þremur hjá sér. 

Bæði lið skoruðu úr fyrstu tveimur spyrnunum en klikkuðu úr þeirri þriðju. Diego Gomez skaut síðan beint á markið úr fjórðu vítaspyrnu Brighton og lét verja frá sér, meðan Forest menn skoruðu úr báðum sínum spyrnum og fóru með sigurinn.

Nottingham Forest er þar með á leiðinni á Wembley í undanúrslit FA bikarsins, líkt og Crystal Palace, sem vann Fulham fyrr í dag.

Í hádeginu á morgun tekur Preston á móti Aston Villa, síðdegis mætast svo Bournemouth og Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×