Alvarleg villa í útbreiddum hugbúnaði netöryggisfyrirtækisins CrowdStrike varð til þess að ótal tölvur og netþjónar hættu að virka þann 19. júlí með þeim afleiðingum að rekstur fyrirtækja truflaðist, flugferðum var aflýst og starfsemi sjúkrahúsa fór úr skorðum.
Fortune 500 listinn samanstendur af 500 stærstu fyrirtækjunum í Bandaríkjunum samkvæmt útreikningum Forbes-tímaritsins. Niðurstaða vátryggingafélagsins Parametrix er því einungis til marks um brot af því fjárhagslega tjóni sem bilunin kann að hafa valdið á heimsvísu.
Fyrirtæki innan bandaríska heilbrigðis- og bankageirans urðu einna verst fyrir barðinu á hugbúnaðarvillunni. Tap heilbrigðisstofnana er metið 1,94 milljarðar bandaríkjadalir og 1,15 milljarðar í tilfelli fjármálastofnana, samkvæmt útreikningum Parametrix. CNN greinir frá þessu.
Einungis lítill hluti tjónsins fæst bættur
Bandarísk flugfélög á borð við United urðu fyrir næstmestum fjárhagslegum áhrifum og félögin sögð hafa tapað samanlagt 860 milljónum bandaríkjadala.
Tölur Parametrix miðast einungis við tapaðar tekjur og hagnað af völdum tölvuhrunsins en tekur ekki til áhrifa minni framleiðni eða þann orðsporsskaða sem rekstrartruflun kann að hafa valdið. Telur vátryggingafélagið að einungis 10 til 20 prósent af tjóni Fortune 500 fyrirtækja falli undir bótavernd netöryggistrygginga.
Glíma enn við áhrif hrunsins
Fjölmörg fyrirtæki nota Falcon, netöryggishugbúnað CrowdStrike til að greina og koma í veg tölvuinnbrot. Þegar CrowdStrike uppfærði hugbúnaðinn í síðustu viku hrundu milljónir tölva um allan heim sem notuðu forritið með Windows-stýrikerfi Microsoft. Beint fjárhagslegt tjón Microsoft er ekki talið með í heildartölu Parametrix þrátt fyrir að það tilheyri Fortune 500-listanum.
Dæmi eru um að fyrirtæki reyni enn að koma rekstri sínum í samt horf eftir kerfisbilunina. Þeirra á meðal er bandaríska flugfélagið Delta Air Lines sem glímir áfram við keðjuverkandi áhrif þess að aflýsa þúsundum flugferða. Bilunin hafði meðal annars áhrif á starfsemi Landsbankans og allra bókasafna hér á landi.