Þannig hóf Halla Tómasdóttir fyrsta ávarp sitt sem forseti í Alþingissalnum í dag, að lokinni formlegri embættistöku.
Ávarpið í heild sinni má sjá hér að neðan.
Halla þakkaði sex fyrri forsetum fyrir þeirra framlag, og þeim Vigdísi, Ólafi Ragnari og Guðna Th. persónulega þar sem þau sátu á fremsta bekk í Alþingissal.
Halla beindi í ræðu sinni sjónum að mannréttindum og minnkandi trausti á stofnunum samfélagsins.
„Við megum ekki sýna andvaraleysi í þessum efnum, og nú bætist það við að tæknin gerir það kleift að falsa bæði hljóð og mynd þannig að nær ómögulegt verður að greina sannar fréttir frá fölsuðum. Hverju og hverjum er þá óhætt að trúa? Hvað verður um traustið?“ spurði Halla.
Unga fólkið fái borð við sætið
Hún ræddi einnig kvíða og þunglyndi. Spurði hvernig það megi vera að ein hamingjusamasta þjóð í heimi, skipi sér einnig í fremstu röð hvað kvíða og þunglyndi varðar. Þá vitnar hún í orð Páls Skúlasonar heimspekings.
„Við getum verið opin fyrir hamingjunni með því að einbeita okkur að því sem gefur lífinu gildi. Við vitum hvað það er með því að veita því eftirtekt sem glæðir lífið birtu og hlýju.“
„Við getum og verðum að bæta andlega og samfélagslega Heilsu,“ segir Halla sem heitir því að ráðast að rótum vandans í samráði við ýmsa aðila. Samstarf og samtal kynslóða sé lykill að því markmiði. Unga fólkið verði að fá borð við sætið.
Þá sagði hún styrk í smæð og mýkt þjóðarinnar.
„Smá en kná og kjarkmikil þjóð sem hefur visku og metnað til að velja mýkri leiðir í hörðum heimi.“
Halla lauk ræðu sinni með flutningi á ljóðinu Leitum eftir Hólmfríði Sigurðardóttur:
Leitum úrræða
látum hendur og orð
fallast í faðma
leitum gleðinnar
í ljóðinu
finnum frelsið
í höndunum
leitum regnbogans
finnum ljósberann
leitum láns
finnum það leika um líf
lands vatns og ljóss.