„Það er sérstaklega uggvænlegt að svo margir séu handteknir, ásakaðir eða ákærðir fyrir að stuðla að hatri eða fyrir brot á lögum gegn hryðjuverkum,“ segir Türk í yfirlýsingu á vef stofnunarinnar.
„Aldrei ber að nota sakamálarétt til að skerða um of tjáningarfrelsi, samkomufrelsi og félagafrelsi,“ segir mannréttindastjórinn.
Í tilkynningu á vef Sameinuðu þjóðanna kemur fram að samkvæmt opinberum upplýsingum hafi rúmlega 2.400 verið handteknir frá 29. júlí. Þar á meðal er fólk sem hefur sætt geðþótta handtöku fyrir þátttöku í mótmælum, mannréttindafrömuðir, ungmenni, fólk með fötlun, stjórnarandstæðingar eða þeir sem taldir eru tengjast þeim. Auk þess hafa eftirlitsmenn skipaður af stjórnarandstöðuflokkum til eftirlits á kjörstöðum verið sviptir frelsi.
Í flestum þeirra tilfella, sem Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna hefur skráð, hefur handteknu fólki ekki verið leyft að velja sér verjendur eða hafa samband við fjölskyldur sínar.
„Ég hvet til tafarlausrar lausnar allra sem handteknir hafa verið af geðþótta og að öllum verði tryggð réttlát málsmeðferð,“ segir Türk í yfirlýsingu sinni og að óhófleg valdbeiting lögreglu og banvænar árásir vopnaðra stuðningsmanna stjórnvalda á mótmælendur megi ekki endurtaka sig.
Ofbeldi ekki lausnin
Í tilkynningu kemur einnig fram að fréttir hafi borist af ofbeldisverkum mótmælenda gegn opinberum embættismönnum og byggingum. Ofbeldi er þó aldrei lausnin, að mati mannréttindastjórans.
„Rannsaka ber öll dauðsföll sem tengjast mótmælunum og láta gerendur sæta ábyrgð í samræmi við sanngjarna málsmeðferð og í samræmi við staðla um sanngjörn réttarhöld,“ segir Türk.
Í yfirlýsingu hans kemur fram að á samfélagsmiðlum megi finna lista af fólki sem hafi hvatt til ofbeldisverka. Á listanum megi meðal annars finna nöfn stjórnarandstæðinga og blaðamanna.
Mannréttindastjórinn hefur einnig lýst áhyggjum sínum af hugsanlegri samþykkt löggjafar um eftirlit, skráningu, starf og fjármögnun almannasamtaka, auk löggjafar til höfuðs fasisma, ný-fasisma og fleiru.

„Ég hvet yfirvöld til að láta hjá líða að samþykkja þessa löggjöf eða neina álíka sem skerðir borgaralegt og lýðræðislegt rými í landinu í þágu félagslegrar samheldni og framtíðar landsins.“
Hann er einnig uggandi yfir því að vegabréf sumra einstaklinga hafi verið gerð ógild.
Slíkt virðist vera gert í hefndarskyni fyrir löglegar athafnir í landinu. Allt þetta eykur spennu og sundrar þjóðfélagsvefnum í Venesúela,“ segir Türk og heldur áfram:
„Alþjóðasamfélagið hefur þýðingarmiklu hlutverki að gegna í að efla víðtæka samræðu með mannréttindi Venesúelabúa að leiðarljósi. Embætti mitt er eins og ætíð til þjónustu reiðubúið,“ bætti mannréttindastjórinn við.