Þrátt fyrir að síðasta ár hafi verið það heitasta í mælingasögunni voru dauðsföllin af völdum hita nokkru færri en árið 2022 þegar fleiri en 60.000 manns létust. Spænska rannsóknastofnunin ISGGlobal áætlar að dauðsföllin í fyrra hefðu verið allt að áttatíu prósent fleiri án viðvörunarkerfa og umbóta í heilbrigðiskerfum Evrópulanda sem gripið hefur verið til undanfarin tuttugu ár.
„Niðurstöður okkar sýna að það hefur átt sér stað aðlögun samfélagsins að háum hita á þessari öld sem hefur dregið verulega úr áhættu og dauðsföllum tengdum hita undanfarin sumur, sérstaklega á meðal eldra fólks,“ hefur Reuters-fréttastofan eftir Elisu Gallo, aðalhöfundi rannsóknarinnar.
Hlutfallslega flest dauðsföllin voru í Grikklandi, Búlgaríu, Ítalíu og Spáni. Rannsóknin byggði á gögnum um dauðsföll og hitamælingar í 35 Evrópulöndum.
Útlit er fyrir að árið í ár gæti orðið það hlýjasta frá upphafi mælinga. Fyrr í sumar var hitamet yfir hæsta meðalhita á jörðinni slegið tvo daga í röð.