Heimsmethafarnir Karsten Warholm og Armand Duplantis ætla þar að keppa við hvor annan en þó ekki í sínum hefðbundnu greinum heldur í 100 metra spretthlaupi.
Warholm er Norðmaður og heimsmethafi í 400 metra grindahlaupi. Hann náði þó bara silfurverðlaunum í greininni í París en varð Ólympíumeistari í Tókýó og er núverandi heimsmeistari.
Duplantis er Svíi og setti enn eitt heimsmetið þegar hann tryggði sér Ólympíugullverðlaunin í stangarstökki í París.
Nú ætla þeir að keppa innbyrðis í 100 metra hlaupi. Warholm á betri tíma en hann hljóp hundrað metrana á 10,49 sekúndum árið 2017. Duplantis hefur hlaupið hraðast á 10,57 sekúndum en það var árið 2018.
Hlaupið er hluti af Demantamótinu Weltklasse Zürich og fer fram á Letzigrund Stadium 4. september næstkomandi. Spretthlaupið er skipulagt í samvinnu á milli PUMA, Red Bull og Weltklasse Zürich.