Skoðun

Er eitt nætur­gaman þess virði?

Reynir Böðvarsson skrifar

Það ætti öllum að vera ljóst að stór hluti þess vanda sem lýðræðið á vesturlöndum á að glíma við á sér rætur í áhrifum auðmanna á allt lýðræðisferlið. Við erum að horfa upp á hrun hins opna frjálslynda samfélags víða í löndunum og ástandið virðist bara fara versnandi, auðmenn moka fjármunum í hægriflokka og staldra ekki einu sinni við þegar hefðbundnir íhaldsflokkar sækja stuðning í sambandi við stjórnarmyndanir hjá öfgahægrinu, flokkum sem eiga sér rætur í fasismanum. Fyrir utan stór bein fjárframlög til hægriflokka þar sem það er leyfilegt er framkvæmdin oft flóknari vegna reglna sem víða er þó reynt að setja til þess að stefja þessa ágengni. En rekstur fjölmiðla virðist af einhverjum ástæðum vera undantekin þegar kemur að reglum um pólitíska íhlutun auðmanna, þar er kannski stærsta lýðræðisvandamálið nú bæði hér á Íslandi og hjá öðrum vestrænum ríkjum.

Eigendur fjölmiðla í vestrænum heimi eru að stórum hluta nokkur fá stór fyrirtæki og auðugir einstaklingar. Rupert Murdoch og fjölmiðlaveldi hans, sem nær yfir News Corp og Fox Corporation, hefur mikil áhrif í Bandaríkjunum, Bretlandi og Ástralíu. Og nú eru fyrirtæki eins og Google, Facebook og Amazon stjórna í auknum mæli dreifingu stafræns efnis og þarmeð auglýsingatekjum á netinu, sem hefur óbeint áhrif á innihald í gegnum reiknirit og auglýsingatekjur.

Þegar fá fyrirtæki stjórna stórum hluta fjölmiðla takmarkast fjöldi skoðana og sjónarmiða sem ná almenningi, eigendur fjölmiðla geta því haft veruleg pólitísk áhrif og mótað almenna skoðun og stefnumótun. Hagnaðarsjónarmið leiða oft til æsifrétta og forgangs á skemmtiefni fram yfir upplýsandi blaðamennsku. Erum við tilbúin til þess að bara horfa á þrotlausa baráttu vinstrisins og verkalýðsfélaga á síðustu öld bara renna út í sandinn á þennan hátt og fórna lýðræðinu fyrir eitt næturgaman?

Höfundur er jarðskjálftafræðingur á eftirlaunum.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×