Viðburðurinn hófst á hópsöng við Hallgrímskirkju. Eftir að hópurinn lagði af stað lagði hann rósir við veggverkið Frjáls Palestína og endaði svo gönguna á samstöðufundi á Austurvelli. Á fundinum á Austurvelli tóku til máls Kristín Sveinsdóttir kennari og söngkona, Hjálmtýr Heiðdal heimildamyndargerðarmaður og formaður Félagsins Ísland-Palestína og Kristín Eiríksdóttir rithöfundur sem las þýðingu sína á ljóði eftir palestínska skáldið Mosab Abu Toha.

Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir viðburðarstjóri segir í tilkynningu að í göngunni í gær hafi markmiðið verið að búa til breiða samstöðu meðal fólks innan ólíkra starfsstétta sem hafa verið gerðar að skotmörkum síðustu tíu mánuði á Gasa. Þar á meðal eru sem dæmi skólastarfsfólks, heilbrigðisstarfsfólks og blaðamenn.
„Fólk, sem tilheyrir þessum stéttum, var hvatt til að búa til skilti heima eða í skiltagerð, sem var haldin fyrir gönguna, með áletrunum á borð við „Hjúkrunarfræðingar fyrir Palestínu” eða „Kennarar gegn þjóðarmorði”, og vekja þannig athygli á breiðri samstöðu almennings á Íslandi,“ segir Salvör Gullbrá.

Hún segir að hópur feðra hafi einnig tekið sig saman um að ganga sem „feður gegn þjóðarmorði”. Til stuðnings og heiðurs þeim fjölmörgu feðrum sem hafa misst börn sín í árásum síðustu mánaða.
„Saga eins þeirra, föður tvíbura sem fór út að ná í fæðingarvottorð þeirra og kom til baka að tvíburunum og konu sinni myrtum komst í heimsfréttir í vikunni,“ segir Salvör Gullbrá.
