Víkingar halda toppsætinu á markatölu og þeir eru einnig komnir í bikarúrslitaleiknum og eru tveimur leikjum frá sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Þessu hafa þeir náð þrátt fyrir dapurt gengi á heimavelli sínum.
Víkingur tapaði 2-1 á heimavelli á móti Skagamönnum í gær og í deildarleiknum á undan náði liðið aðeins jafntefli við Vestra. Báðir nýliðarnir hafa því tekið stig úr Víkinni í síðustu leikjum.
Víkingsliðið hefur aðeins unnið einn af síðustu sex heimaleikjum sínum í öllum keppnum og sá sigur kom á móti botnliði HK. Í sjöunda leiknum þurfti Víkingsliðið vítakeppni til að slá Stjörnuna út úr undanúrslitum bikarsins.
Þrátt fyrir að hafa komist svona langt í Evrópu þá hefur það verið gott gengi á útivelli sem er að koma Víkingum áfram. Liðið á nefnilega enn eftir að vinna Evrópuleik í Víkinni í sumar. Tap á móti Egnatia og jafntefli á móti bæði Shamrock Rovers og Flora Tallinn.
Næsti leikur Víkings er fyrri leikur liðsins á móti Santa Coloma frá Andorra í Sambandsdeild UEFA. Hvort fyrsti Evrópusigurinn líti dagsins ljós á fimmtudagskvöldið verður að koma í ljós.
- Síðustu sjö heimaleikir Víkinga:
- 3. júlí í Mjólkurbikar karla: 1-1 jafntefli við Stjörnuna (Unnu í vítakeppni)
- 9. júlí í Meistaradeild UEFA: 0-0 jafntefli við Shamrock Rovers
- 25. júlí í Sambandsdeild UEFA: 0-1 tap fyrir Egnatia
- 28. júlí í Bestu deild: 5-1 sigur á HK
- 8. ágúst í Sambandsdeild UEFA: 1-1 jafntefli við Flora Tallinn
- 11. ágúst í Bestu deild: 1-1 jafntefli við Vestra
- 19. ágúst í Bestu deild: 1-2 tap fyrir ÍA