Bayesian, lystisnekkja breska auðkýfingsins Mike Lynch, hvolfdi og hún sökk á örfáum mínútum við Sikiley á mánudag. Kokkurinn af snekkjunni, Racaldo Tomas, fannst látinn sama dag og fimmtán var bjargað.
Alls er sex saknað úr snekkjuni. Það eru Lynch, átján ára gömul dóttir hans, Jonathan Bloomer, stjórnarformaður Morgan Stanley International, og eiginkona hans Judy Bloomer. Þá er einnig ameríska skarpgripahönnuðarins Neda Morvillo saknað og eiginmanns hennar.
Erfiðlega hefur gengið að leita að líkum fólksins. Snekkjan liggur á stjórnborðahliðinni á um fimmtíu metra dýpi og húsgögn hindrað leið kafara að brúnni og káetum neðan þilja. Vegna dýpisins geta kafarar aðeins leitað í um tíu mínútur í senn.
Snekkjan sökk í ofsaveðri á fimmtudag í um 700 metra fjarlægð frá landi. Í frétt BBC segir að talið sé að snekkjan hafi lent í hvirfilbyl eða skýstrokki sem hafi hvolft henni og hún í kjölfarið sokkið niður.
Ítölsk yfirvöld hafa ekki gefið neitt út um það hverjir það eru sem er búið að finna en samkvæmt ítölskum lögum má ekki gera það opinberlega fyrr en búið er að tilkynna nánustu aðstandendum um fundinn. Yfirvöld á Ítalíu hafa gefið út að rannsókn muni fara fram á tildrögum slyssins en að það sé í forgangi að finna alla sem voru um borð.
Alls voru 22 um borð í snekkjunni þegar hún sökk. Tíu áhafnarmeðlimir og tólf gestir. Eigandi hennar, Lynch, hafði boðið þeim að koma með sér í siglingu til að fagna því að hann hafi verið sýknaður af ásökunum um fjársvik.