Þetta segir Þorsteinn Sæmundsson, jarðfræðingur við Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið í morgun.
Stefnt er að því að opna veginn á ný í dag en honum var lokað á föstudag. Úrkoma þann dag mældist 180 til 200 millimetrar á sólarhrings tímabili og hefur þurft að fylla í sprungur sem mynduðust í rigningunum.
„Eins og víða hefur komið fram er þetta vegarstæði ekki ákjósanlegt. Það eru miklar færslur og hreyfingar á vegstæðinu á kaflanum frá Hraunum í Fljótum og út á Almenningsnöf. Þarna eru þrjú berghlaup sem eru á hreyfingu,“ segir Þorsteinn.
Töluverð vegalengd er enn fyrir veginn í bjargbrúnina að sögn Þorsteins og hægt er að færa hann ofar. Þó séu miklar skemmdir á veginum.
Tekið getur nokkra daga fyrir hreyfinguna á veginum að koma í ljós þar sem vatnið þurfi fyrst að síga inn í jarðlögin. Enn sé mikið vatn á svæðinu og hreyfingin standi því enn yfir.