„Einhver að segja Björk að ég er staddur í fallega landinu hennar,“ skrifar Joost á miðilinn. Þar lætur hann fylgja með tvo íslenska fána auk þess sem hann birtir stutt myndband af sér í miðbæ Reykjavíkur. Þar er hann með sígarettu og sólgleraugu ásamt félaga sínum.
Joost var eins og alþjóð veit rekinn úr keppni eftir að hafa haft í hótunum við ljósmyndara baksviðs. Tilkynnt var í síðasta mánuði að sænsk yfirvöld væru hætt rannsókn á málinu. Samkvæmt ríkissaksóknara í Svíþjóð voru ekki næg sönnunargögn í málinu.
Hollenski tónlistarmaðurinn hefur allar götur síðan þvertekið fyrir að hafa hótað ljósmyndaranum. Eins og fram hefur komið voru síðustu klukkutímarnir fyrir Eurovision í ár afar spennuþrungnir vegna þátttöku Ísrael í keppninni og stríð þeirra á Gasa strönd þar sem þúsundir almennra borgara liggja í valnum.
Þá hefur Klein ekki vandað keppninni kveðjurnar en á tónleikum sínum hefur hann sagt forsvarsmönnum hennar að fara norður og niður. Hollenska ríkisútvarpið hefur enn ekki ákveðið hvort það muni keppa að nýju í söngvakeppninni á næsta ári.
Eins og fram hefur komið munaði einungis 25 mínútum að sex lönd myndu ekki taka þátt í keppninni í ár eftir að Hollandi var vikið úr keppni. Það voru Sviss, Noregur, Grikkland, Írland og Portúgal en fulltrúar landanna voru ósáttir við brottrekstur Hollands auk hegðun ísraelska hópsins og starfsfólks á þeirra vegum.
