Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að gagnaverið verði byggt frá grunni á 174 hektara lóð og að það fái nafnið DEN02. Í gagnaverinu verður bæði hægt að fá hýsingu og sérsniðnar lausnir.
DEN02 er fjórða gagnaverið sem atNorth hefur í byggingu á Norðurlöndum, en fyrir er atNorth með í rekstri þrjú gagnaver á Íslandi, tvö í Svíþjóð og tvö í Finnlandi. Taka á DEN02 gagnaverið í notkun síðla árs 2026. Í fyrsta áfanga verður það með afkastagetu upp á 250 megavött, en frekari stækkun möguleg í mörg hundruð megavatta afkastagetu. Stækkun verður í takti við eftirspurn líkt og gert er ráð fyrir í einingahönnun gagnavera atNorth.
DEN02 er annað gagnaver atNorth sem rís í Danmörku, en hið fyrra, DEN01, er í grennd við Ballerup. Stefnt er að opnun þess fyrir annan ársfjórðung 2025.
Í gagnaverinu verður, samkvæmt tilkynningu, sérstaklega verði hugað að þörfum fyrirtækja sem nota mikið magn gagna. Sem dæmi fyrirtæki sem bjóða upp á skýjaþjónustu auk mikillar reiknigetu [e. hyperscalers] og fyrirtæki sem keyra gervigreind og þunga tölvuvinnslu.
„Óhætt er að segja að DEN02 sé fyrirmynd gagnavera framtíðar. Það er lifandi dæmi um nýsköpun í geiranum, með áherslu á orkunýtingu í hönnun og notkun nýjustu tækni á sviði endurnýtingar varma, góðu staðarvali í Danmörku og áherslu atNorth á sjálfbærni. Gagnaverið er kjörið fyrir hyperscale fyrirtæki og fyrirtæki á sviði gervigreindar sem vilja draga úr kolefnispori þungrar tölvuvinnslu sinnar,“ segir Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth í tilkynningu.
Kalda loftslagið henti vel
Þar kemur einnig fram að það henti afar vel að reka gagnaver á Norðurlöndum. Kalda loftslagið kæli gagnaverin og lækki orkukostnað.
Þá segir einnig að í uppbyggingu sinni leggi atNorth áherslu á hringrásarhagkerfið og hafi þegar skrifað undir samstarfssamning við Wa3rm sem er leiðandi fyrirtæki á sviði þróunar lausna til nýtingar úrgangstrauma. Með samstarfinu verður hægt að endurnýta varma frá DEN02 í iðnaðargróðurhúsum. Þá getur gagnaverið séð nærsamfélaginu fyrir upphitun húsa og heitu vatni í samstarfi við hitaveitu svæðisins. Eins skoðar atNorth möguleikann á því að laða að sjálfbæra orkuframleiðslu við gagnaverið með nýtingu vind- og sólarorku.
„Það gleður okkur mjög að ganga til samstarfs við atNorth í sameiginlegri skuldbindingu okkar við hringrásarhagkerfið. Fyrsta flokks gagnaver á borð við DEN02 geta með markverðum hætti stutt aukna endurnýtingu með því að nýta hluti á borð við umframvarma. Í atNorth höfum við fundið samstarfsaðila sem deilir sýn okkar á endurnýtingu,“ Jacques Ejlerskov, forstjóri Wa3rm.