Valur vann fyrri leik liðanna á heimavelli, 34-25. Heimamenn náðu hins vegar fljótt ágætri forystu í leiknum í Króatíu í dag og voru komnir níu mörkum yfir, 19-10, þegar flautað var til hálfleiks.
Þar með höfðu þeir jafnað metin í einvíginu og ljóst að seinni hálfleikurinn yrði æsispennandi. Valsmenn náðu þó fljótt að minnka muninn í leiknum í dag í sex mörk, og komast þannig þremur mörkum yfir í einvíginu, en staðan var 30-24 (samtals 58-55 fyrir Val) þegar þrjár mínútur voru eftir.
Mikil spenna var hins vegar í lokin því heimamenn náðu að skora tvö mörk, og minnka forskot Vals í einvíginu í eitt mark, en lokatölur urðu 32-24 og að lokum voru það því Valsmenn sem fögnuðu sætum sigri í einvíginu.
Bjarni í Selvindi, nýi Færeyingurinn í liði Vals, var markahæstur í dag með sjö mörk en Ísak Gústafsson og Andri Finnsson komu næstir með fjögur mörk hvor.
Mæta tveimur Íslendingaliðum
Það er þegar orðið ljóst hvaða lið verða í riðli með Valsmönnum í Evrópudeildinni. Þeir munu spila í F-riðli með Porto frá Portúgal, Vardar frá Norður-Makedóníu og Melsungen frá Þýskalandi. Það er því von á Elvari Erni Jónssyni og Arnari Frey Arnarssyni með Melsungen til landsins í haust, og Þorsteini Leó Gunnarssyni með Porto.
Riðlakeppnin hefst 8. október og verður spilað fram til 26. nóvember. Tvö efstu lið hvers riðils komast áfram.