Fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 og sjónum beint að úrræðum innan geðheilbrigðisþjónustu þar sem biðtími barna getur numið allt að þremur árum.
Til viðtals um aukið viðbragð og sýnileika lögreglu var Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.
„Við höfum verið að skoða þessa alvarlegu þróun. Við höfum séð að það eru fleiri alvarlegri brot hjá ungum hópi sem við höfum þurft að bregðast við. Ráðherrar brugðust við og settu fram aðgerðir. Síðan koma alvarleg mál og við komum með tillögur um aukinn þunga,“ segir Sigríður Björk.
Hratt og vel hafi verið brugðist við þessum tillögum af ríkisstjórn.
„Það er strax búið að samþykkja það. Þarna gefst okkur færi til að auka samfélagslöggæslu til muna.Afbrotavarnir eru mjög mikið atriði, að við tölum við krakka og erum í nánum samskiptum við alla sem koma að því.“
Fleiri lögreglumenn og meiri viðvera á ákveðnum tímum er sömuleiðis hluti af aðgerðunum.
„Við greinum svæðin og setjum meiri þunga þar. En þunginn er hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.“
Sigríður Björk segir að það verði hægt að fjölga lögreglumönnum vegna átaks um að fá fleiri inn í lögreglunámið.
„Nú erum við farin að sjá árangur. Það eru 89 nýir nemendur að hefja nám hjá okkur. Í fyrsta skipti eru ekki allir þegar í starfi og við erum að sjá fleiri menntaða lögreglumenn. Við vonum bara að þessi þróun haldi áfram.“