Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra mælti fyrir fjárlagafrumvarpi næsta árs á Alþingi í morgun. Fjárlagaumræðan mun síðan standa yfir næstu daga. Fjármálaráðherra lagði áherslu á ábyrg ríkisfjármál og að útgjöld ríkisins hefðu dregist saman sem hlutfall af landsframleiðslu. Svigrúm væri skapað til að forgangsraða verkefnum.

„Þannig verður dregið úr ríkisumsvifum, staða ríkissjóðs styrkt og unnið gegn þenslu og verðbólgu í hagkerfinu. Það er forðast að grípa til aðgerða sem leitt geta til þjónustuskerðingar eða verri lífskjara ákveðinna hópa,“ sagði fjármálaráðherra og nefndi sérstaklega öryrkja og aldraða.
Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar sagði almennt launafólk ekki skilja fullyrðingar ríkisstjórnarinnar um aukinn kaupmátt, þar sem ekki væri tekið tillit til hlutfalls vaxtagreiðslna í bókhaldi heimilanna. Ríkisstjórnin ætlaði ekki að nota tækifærið með síðasta fjárlagafrumvarpi sínu að grípa til aðgerða til að ná niður verðbólgunni.

„Þau ætla í engar skattahækkanir, engan niðurskurð engar kollsteypur. Já, þau ætla bara að anda sig í gegnum þetta. Sitja þetta af sér. Láta þetta malla áfram á sjálfstýringu líkt og sú stefna hafi skilað einhverjum árangri hingað til. Nei, sú stefna er ástæðan fyrir því að verðbólgan hefur mallað í kerfinu og er nú farin að grassera,“ sagði formaður Samfylkingarinnar.
Sigurður Ingi segir aðhald í útgjöldum næsta árs verða 29 milljarða króna. Að teknu tilliti til aukinna tekna ríkissjóðs og verðbólgu verði aðhaldið um 40 milljarðar í fjárlögum næsta árs. Á sama tíma hefðu 44 milljarðar farið í aðgerðir til stuðnings ungu barnafólki á þessu ári og upphæðin yrði svipuð á næsta ári.
„Förum ekki niður í skotgrafir. Þegar því er haldið fram að ríkisstjórnin hafi ekki gert neitt. Þá eru menn að segja að þessir fjörutíu milljarðar og 44 milljarðar á yfirstandandi ári hafi ekki skipt máli í þessi fimm eða sex verkefni til stuðnings ungu barnafólki. Ég er ósammála því,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson.
Fyrstu umræðu um fjárlagafrumvarpið verður haldið áfram í allan dag. Seinnipartinn koma fagráðherrar að umræðunni og henni verður síðan framhaldið á morgun.