Helmingur markanna, eða átta þeirra, komu í Kópavogsslagnum þar sem Breiðablik vann HK, 5-3. Aron Bjarnason skoraði tvö mörk fyrir Blika og þeir Viktor Karl Einarsson, Kristófer Ingi Kristinsson og Höskuldur Gunnlaugsson sitt markið hver. Eiður Gauti Sæbjörnsson, Arnþór Ari Atlason og Atli Þór Jónasson skoruðu mörk HK-inga.
Fram og FH skildu jöfn, 3-3, á Lambhagavellinum í Úlfarsárdal. Sömu úrslit urðu í fyrri leik liðanna. Alex Freyr Elísson skoraði jöfnunarmark Framara úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Hann hafði áður skorað um miðjan seinni hálfleik. Djenairo Daniels var einnig á skotskónum fyrir Fram. Kjartan Kári Halldórsson skoraði tvö mörk fyrir FH og Kristján Flóki Finnbogason eitt.
Stjarnan vann sinn þriðja leik í röð þegar liðið bar sigurorð af Vestra, 1-0, á heimavelli. Emil Atlason skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á lokamínútunni.
Þá skoraði Rúnar Már Sigurjónsson sitt fyrsta mark fyrir ÍA þegar hann tryggði liðinu sigur á KA, 1-0, á Akranesi.
Mörkin úr leikjum gærdagsins í Bestu deildinni má sjá hér fyrir ofan.