Körfubolti

Finnur Freyr fram­lengdi til 2028

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Finnur Freyr Stefánsson vann sinn sjöunda Íslandsmeistaratitil sem þjálfari fyrir ári síðan.
Finnur Freyr Stefánsson vann sinn sjöunda Íslandsmeistaratitil sem þjálfari fyrir ári síðan. Vísir/Anton

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari ríkjandi Íslands- og bikarmeistara Vals í karlakörfunni, verður áfram þjálfari Valsliðsins næstu árin.

Valsmenn sögðu frá því að Finnur hafi skrifað undir nýjan þriggja ára samning við félagið, samning um þjálfun meistaraflokks karla sem gildir út tímabilið 2027-2028.

Valsmenn unnu Grindavík í fyrsta leiknum í átta liða úrslitum Bónus deildar karla í körfubolta en mæta Grindvíkingum aftur á sunnudagskvöldið í Smáranum.

„Við fögnum þessari undirskrift en samstarf okkar við Finn hefur verið frábært undanfarin ár. Hann er góður þjálfari, mikill liðsmaður og frábær manneskja. Það er gott að hafa slíkan mann með okkur í Val,“ segir í frétt á miðlum Vals.

Valsmenn urðu Íslandsmeistarar undir stjórn Finns síðasta vor og urðu síðan bikarmeistarar á dögunum. Liðið er því handhafi tveggja stærstu titlana í karlakörfunni á Íslandi.

„Mér hefur liðið mjög vel að Hlíðarenda og hef eignast marga góða vini. Ég hlakka til næstu ára og vinna í því góða umhverfi sem er hér í Val,“ sagði Finnur í frétt á miðlum Vals.

Alls hefur Valur unnið sex stóra titla undir stjórn Finns síðan hann tók við liðinu árið 2020. Liðið varð Íslandsmeistari 2022 og 2024, bikarmeistari 2023 og 2025 og deildarmeistari 2023 og 2024. Liðið hefur líka farið í lokaúrslitin undanfarin þrjú tímabil.

Alls hefur Valur unnið 74 af 110 deildarleikjum undir stjórn Finns (67%) og 29 af 45 leikjum í úrslitakeppninni (64%). Alls gerir það 103 sigra í 155 leikjum á Íslandsmótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×