Skoðun

Viljum við út­rýma kristni úr þjóð­lífinu?

Gunnlaugur Stefánsson skrifar

Það er verið að útrýma kristni úr þjóðlífinu. Kristnifræði sem námsgrein hefur t.d. að mestu verið aflögð í grunnskólanum undir því yfirskini að sé óæskilegur áróður. Starfslið skólanna þorir tæpst að fara með börnin í heimsókn í kirkjurnar af ótta við ofsóknir frá háværu öfgafólki. Þá telja Kirkjugarðar Reykjavíkur gott að afmá kristinn kross úr merki sínu til að hressa upp á orðspor sitt. Þjóðkirkjan hefur lengi liðið fyrir hatursorðræðu og nánast verið í fjölmiðlabanni árum saman varðandi fréttaflutning af blómlegu starfi sínu. Fjölsóttir kirkjudagar Þjóðkirkjunnar í Lindarkirkju fyrir stuttu er táknrænt dæmi um það.

Þorgeir Ljósvetningagoði taldi mikilvægt að þjóðin hefði ein lög og einn sið til að verja friðinn í landinu, þegar kristni var lögtekin á Íslandi árið 1000. Þannig eru lög og trú samofin. Þjóðskipulag alls staðar í veröldinni hefur þróast um aldir fram á okkar dag með því að trúarbrögðin næra lögin. Táknrænt um þetta er, að Alþingi er sett á haustin með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Þá er kristinn kross í þjóðfánum Norðurlandanna til merkis um að þessi lönd byggja lög og menningu á kristnum gildum. Svo er dagatalið með sínum kristnu hátíðum vitnisburður um að við erum saman í einum sið.

Er það tilviljun að einmitt Norðurlöndin hafa lengi verið þekkt af velferð og mannúð, mannréttindum og jafnræði í samfélagi þjóðanna?

Gæti verið að kristin áhrif ráði mestu um það?

Núna er Þjóðkirkjan aðskilin frá ríknu. En viljum við aðskilja kristni og þjóðlíf?

Í útvarpsviðtali sagði mannfræðingur, sem hafði rannsakað mannlífið í Íslendingabyggðum vestanhafs, að örsnauðir Íslendingar, sem flúðu land og settust þar að, hefðu fljótlega umfram aðra verið kallaðir til forystu og opinberra trúnaðarstarfa í nýjum heimkynnum af því að þeir voru læsir og skrifandi. Hverju má þakka það? Mannfræðingurinn svaraði: Fermingunni. Allir voru skyldugir til að fermast á Íslandi og urðu að kunna að lesa til þess að geta fræðst um trúna og ræktað sitt persónulega samband við Guð. Prestunum var falið að sjá um fræðsluna. Þannig var kirkjan eini barnaskóli landsins um aldir. En nú þykir ótækt, og jafnvel talið brot á mannréttindum, að ræða um Guð í skólanum.

Hefur það orðið til farsældar fyrir börnin og líður þeim þess vegna betur?

Er líklegt að almennt læsi á meðal barna og unglinga hafi fyrr á öldum í sárri fatækt og örbirgð þjóðar verið meira en nú er?

Allan minn barnaskóla lét kennarinn okkur 30 börnin í bekknum hefja hvern einasta kennsludag með því að biðja saman Faðir vor. Svo var kristnifræði ein aðalnámsgreinin þar sem áhersla var á Bíblíusögur og utanbókarlærdóm. Síðar í gagnfræðiskóla var öllum nemendum skólans fyrir jólin safnað saman á sal þar sem sóknarpresturinn las jólaguðsjallið, fór með bæn og Faðir vor.

Ég hef ekki heyrt af neinum sem varð meint af þessum tiltækjum, en sjálfur á ég um þetta fallegar minningar og reyndist mér haldreipi síðar, ekki síst þegar á móti blés í lífinu. Mörg skólasystkina minna hafa haft orð af sömu reynslu.

Hvaða kjölfestu eiga börnin núna á andans grunni?

Er grunnskólinn orðinn að andlausri og siðalausri stofnun?

Er þar bannað að syngja eða kenna börnunum þjóðsönginn af því að hann er kristinn bænasálmur?

Svo skrifar prófessor í félagsfræði í HÍ bók og segir að samfélagið sé á slæmri vegferð, grafið sé undan félagslegu heilbrigði, einmannaleiki eykst með kvíða, kulnun og misskiptingu auk þess að samhugur og gagnkvæm hjálpsemi sé að veikjast. Er við öðru að búast, ef þjóðin glatar sambandi við andlega næringu sína?

Kristinn boðskapur er um ást og umhyggju, mildi og umburðarlyndi, en ekki síður ábyrgð og virðingu við mannhelgi, þetta sem gefur lífinu tilgang og von. Hvernig í ósköpunum má snúa málum svo á hvolf, að eftirsóknarvert verður að útrýma slíkum gildum úr þjóðlífinu?

Það þarf slóttuga spunameistara í sauðagæru til að gera það.

Samt er hrópað hástöfum eftir meiri kærleika í samfélaginu.

Viljum við fórna kristnum gildum til að þóknast útlendingum ólíkra trúarbragða sem hér setjast að? Er það þannig sem við umgöngust aðrar þjóðir í fjarlægum löndum ef við setjumst þar að, krefjast þess að öllu verði breytt af því að mínir siðir eru öðruvísi? Er það aflvaki fjölmenningar?

Líkist það ekki fremur ofbeldi en mannréttindum?

Trúfrelsið er áfram í fullu gildi, en í ár eru 150 ár síðan það var lögtekið á Íslandi. Það er einmitt fólgið í kristni að efla frelsi, virða ólíkar skoðanir og rækta umburðarlyndi.

Athyglisvert er, að fólk sem þjáist af fíkn vegna ofneyslu áfengis og eiturlyfja leitar í æðruleysisbænina sér til bata og frelsis, ákallar Guð til að öðlast frið og tilgang í sálina.

Gæti það líka verið gott fyrir laskaða þjóðarsál?

Í ágætri bók, Trú og vald í mannkynssögunni, telja höfundarnir, Jónas Elíasson, verkfræðingur, og Pétur Pétursson, guðfræðingur, að valdi erfiðleikum í sambúð fólks af Islam trúar og kristinnar menningar, að fyrirgefningin hefur aldrei fest rætur í sið Islam, þar sem endurgjaldslögmálið auga fyrir auga og tönn fyrir tönn gildir. Aftur á móti er fyrirgefningin með iðrun og yfirbót kjölfestan í kristni og þar með í menningu okkar réttarríkis.

Þetta er umhugsunarverð kenning, en sýnir hve mikilvægt er að opið og trúverðugt samtal eigi sér stað á milli ólíkra trúarbragða, þar sem virðing og skilningur er í fyrirrúmi. En það felur ekki í sér, að útrýma kristni úr menningu okkar, sem reynst hefur þjóðinni vel, mótað mannskilning okkar um aldir og sameinað þjóðina um einn sið og ein lög.

Það heitir kristin siðmenning og er hornsteinn friðar í landinu.

Viljum við breyta því?

Höfundur er fyrrum sóknarprestur í Heydölum.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×