Þessi átök hafa leitt til tuga dauðsfalla í Ísrael en hundruð dauðsfalla í Líbanon og tugir þúsunda beggja vegna við landamærin hafa þurft að flýja heimili sín.
Forsvarsmenn hersins segjast hafa gert árásir á um 400 skotmörk í Líbanon í gær og að þeir hafi grandað þúsundum eldflauga og skotpalla fyrir eldflaugar, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.
Talið er að vígamenn Hezbollah hafi setið á allt að 150 þúsund eldflaugum, sem þeir hafa fengið frá Íran og framleitt sjálfir um langt skeið.
Sjá einnig: Ísraelar gerðu áhlaup á leynilega vopnaverksmiðju í Sýrlandi
Þá hafa Ísraelar lokað skólum og bannað stórar samkomur víðsvegar um norðanvert landið vegna linnulausra eldflaugaárása frá Líbanon og einnig frá Írak, þar sem aðrir vígahópar sem Íranar styðja starfa.

Ísraelar segja að Hezbollah hafi skotið rúmlega hundrað eldflaugum í nótt og í morgun. Flestar voru skotnar niður en nokkrar þeirra lentu í borginni Haifa og í úthverfum hennar. Enn sem komið er hafa engar fregnir borist af mannfalli, samkvæmt frétt Reuters.
Nokkrir eru sagðir hafa særst í árásunum.
Dashcam footage shows the impact of a missile launched by Hezbollah in Kiryat Biyalik, north of Haifa #Israel pic.twitter.com/JxdkHakkaX
— Michael A. Horowitz (@michaelh992) September 22, 2024
Leiðtogar Hezbollah segjast hafa skotið tugum svokallaðra Fadi 1 og Fadi 2 eldflaugum að herstöð suður af Hafia. Það eru eldflaugar sem þeir hafa aldrei notað áður og Ísraelar segja þetta í fyrsta sinn sem Hezbollah gerir árásir svo sunnarlega í landinu.
Nýr fasi stríðsins
Eins og áður hefur komið fram hefur verið gífurleg spenna á landamærum Ísrael og Líbanon um langt skeið. Ráðamenn í Ísrael virðast nýverið hafa tekið þá ákvörðun að gera umfangsmeiri árásir á Hezbollah og ku markmiðið vera að reyna að stöðva árásir samtakanna á norðurhluta Ísrael.
Ráðamenn hafa lýst ástandinu á þann veg að stríðið sé komið í „nýjan fasa“ og hefur jafnvel verið rætt um að gera innrás í Líbanon og reka vígamenn Hezbollah frá suðurhluta landsins.
Þessi nýi fasi hófst fyrr í vikunni þegar þúsundir símboða, sem notaðir voru af vígamönnum Hezbollah, sprungu samstundis í loft upp. Degi síðar sprungu svo fjölmargar talstöðvar samtakanna. Einn af æðstu leiðtogum samtakanna var svo feldur í loftárás í Beirút, samhliða mörgum af hans næstu undirmönnum í hernaðararmi Hezbollah.
Þá eru þeir sagðir hafa verið á fundi í kjallara fjölbýlishúss en minnst 37 létu lífið í árásinni, þar á meðal sjö konur og þrjú börn.
Sjá einnig: Felldu marga leiðtoga Hezbollah í einni árás
Sendiráð Bandaríkjanna í Beirút hefur ráðlagt Bandaríkjamönnum í Líbanon að yfirgefa landið við fyrsta tækifæri á meðan það sé hægt. Yfirvöld í Jórdaníu, nágrannaríki Líbanon hafa gefið út sambærilega ráðleggingu.