Lewandowski kom gestunum yfir á 20. mínútu leiksins áður en hann tvöfaldaði forystuna á 35. mínútu. Þremur mínútum síðar minnkaði Ayoze Perez hins vegar muninn fyrir Villarreal og staðan því 2-1, Barcelona í vil, þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.
Pablo Torre bætti hins vegar þriðja marki Börsunga við á 58. mínútu og átta mínútum síðar fékk Lewandowski tækifæri til að fullkomna þrennuna af vítapunktinum, en misnotaði spyrnuna.
Gestirnir létu það þó ekki á sig fá og Raphinha innsiglaði öruggan 5-1 sigur með tveimur mörkum á lokamínútum leiksins. Heimamenn hefðu vissulega getað gert Börsungum lífið leitt í leik kvöldsins, en varsjáin tók þrjú mörk af Villarreal vegna rangstöðu.
Niðustaðan varð því 5-1 sigur Barcelona sem enn trónir á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir sex umferðir, en Villarreal situr í fimmta sæti með 11 stig.