Lina Souloukou, framkvæmdastjóri Roma, hefur sætt hótunum af hálfu stuðningsmanna félagsins eftir að De Rossi var rekinn á dögunum. De Rossi er goðsögn hjá Rómverjum en hann lék fyrir félagið um árabil.
Vel gekk undir hans stjórn á síðustu leiktíð en hann tók við um hana miðja. Ekki hefur farið eins vel á yfirstandandi tímabili og var hann rekinn úr starfi í síðustu viku. Stuðningsmenn liðsins hafa lýst yfir stuðningi við De Rossi í stúkunni eftir brottreksturinn og beina einnig spjótum sínum að þeim sem valdið hafa hjá félaginu.
Souloukou og fjölskylda hennar eru nú undir vernd lögreglu vegna hótanna stuðningsmanna.
Það var ekki til að friða stuðningsmenn félagsins að bandarískir eigendur liðsins hyggist kaupa enska félagið Everton. Tíðindi af því bárust í breskum fjölmiðlum í dag og sáu þeir Dan og Ryan Friedkin, eigendur Roma, sig knúna til að senda frá sér yfirlýsingu vegna málsins.
Verið þess fullvissir að skuldbinding okkar gagnvart Roma minnkar ekki, sagði meðal annars í yfirlýsingunni.
Króatinn Ivan Juric tók við stjórnartaumunum hjá Roma af De Rossi og stýrði liðinu til 3-0 sigurs á Udinese í fyrsta leik um helgina. Roma hafði gert þrjú jafntefli og tapað einum í fyrstu fjóru leikjunum undir stjórn De Rossi.