Inaki Pena varði mark Börsunga annan leikinn í röð, eftir að Marc-André ter Stegen meiddist svo alvarlega að hann spilar ekki meira á tímabilinu, og þurfti að sækja boltann fjórum sinnum í netið. Barcelona hefur samið við Pólverjann Wojciech Szczesny um að taka hanskana úr hillunni en hann var ekki í leikmannahópnum í kvöld.
Króatinn Ante Budimir og Bryan Zaragoza Martínez komu Osasuna í 2-0 í fyrri hálfleik. Pau Victor minnkaði muninn snemma í seinni hálfleik en Budimir skoraði svo úr víti og Abel Bretones kom heimamönnum í 4-1.
Lamine Yamal, sem hóf leikinn á bekknum, náði að klóra í bakkann fyrir Börsunga með glæsimarki í lokin og hefur því skorað eða lagt upp mark í öllum leikjum tímabilsins til þessa, eftir að hafa slegið algjörlega í gegn á EM í sumar.