Þotan sem lýkur ferlinum flaug yfir höfuðstöðvar Atlanta í Kópavogi, sem og yfir Reykjavíkurflugvöll, um tvöleytið í gær áður en hún lenti á Keflavíkurflugvelli eftir nærri átta stunda beint flug frá Jedda í Sádí-Arabíu. Hún flaug yfir Reykjavíkursvæðið í þrjúþúsund feta hæð en vegna stærðar hennar hafa eflaust margir sem sáu hana talið hana fljúga mun lægra yfir borginni.

Þessi tiltekna þota, af undirgerðinni 747-400, var merkt Saudia-flugfélaginu, sem Atlanta flýgur fyrir, og sinnti hún meðal annars pílagrímaflugi í sumar. Hún er skrásett hjá systurfélaginu Air Atlanta Europe á Möltu með skráningarnúmerið 9H-AZA og getur borið 460 farþega.
Hún var upphaflega smíðuð fyrir Air France og afhent í marsmánuði árið 2004. Árið 2016 var hún tekin í þjónustu Air Atlanta Icelandic sem TF-AAL.

Stöðvar 2-menn, við kvikmyndatökur vegna þáttaraðarinnar Flugþjóðin, fylgdust með því á flugvellinum í Jedda í júlímánuði þegar pílagrímar á heimleið til Indónesíu gengu um borð í flugvélina. Guðlaugur Ingi Sigurðsson flugstjóri og áhöfn hans voru þá að leggja upp í níu stunda flug með 449 pílagríma.
Síðasta farþegaflug hennar eftir tuttugu ára þjónustu verður fjögurra daga ferð með starfsmenn Air Atlanta til Marokkó. Flogið verður frá Keflavík næstkomandi fimmtudag og komið til baka á sunnudag, samkvæmt upplýsingum frá félaginu. Mánudaginn 7. október verður henni svo flogið til Cotswold-flugvallar norðaustan Bristol þar sem hennar bíður niðurrif í endurvinnslustöð.
Atlanta-flugfélagið er komið með fjórar nýrri og hagkvæmari tveggja hreyfla Boeing 777-farþegaþotur, sem leysa 747-þoturnar af hólmi. Þótt farþegaflugi Air Atlanta á 747-þotum ljúki þar með mun félagið áfram nýta þær til fraktflutninga. Baldvin Már Hermannsson, forstjóri Air Atlanta, sagði í viðtali við Stöð 2 í fyrra að sem fraktvélar ættu 747-þoturnar mörg góð ár eftir.
Það vakti þjóðarathygli vorið 1993 þegar Air Atlanta, undir stjórn stofnandans Arngríms Jóhannssonar, tók fyrstu Boeing 747-þoturnar í notkun enda voru þær þá stærstu farþegaflugvélar heims. Þær þotur voru einnig merktar Saudia-flugfélaginu, kaupanda þjónustunnar, og sinntu sömuleiðis pílagrímaflugi.

Svo skemmtilega vill til að í fimmta þætti Flugþjóðarinnar, sem er á dagskrá Stöðvar 2 annaðkvöld, mánudagskvöld, klukkan 19:10, fá áhorfendur að kynnast Boeing 747-þotunni. Þá verður áhöfn Air Atlanta á slíkri fraktþotu fylgt í hringferð um Afríku.