Sýningin ber heitið „Prone to Bruise“ og samanstendur af verkum listamannsins David Molesky. Sýningin verður uppi á veggjum Brút til 12. janúar næstkomandi og er opin samhliða opnunartíma veitingastaðarins.

Í fréttatilkynningu segir:
„Á veggjum Brút má nú sjá ellefu ný olíumálverk sem David hefur unnið sérstaklega fyrir sýninguna.
Í verkunum blandar hann saman tveimur þekktum myndefnum úr listasögunni, hetjunni og banananum. Þannig birtist í þeim nokkuð brothætt karlmennska, karlmennska sem er með frekar þunnan skráp og meiðist og merst auðveldlega.
Prone to Bruise, eins og David kallar það.
David Molesky hefur unnið mikið hér á Íslandi síðan hann kom hingað fyrst og starfaði þá með Odd Nerdrum veturinn 2006–2007 í gamla Borgarbókasafninu.
Hugmyndin að þessum nýju verkum kviknaði hjá honum þegar hann var gestalistamaður á Listasafni Akureyrar á fyrstu mánuðum COVID-faraldursins. Þá málaði hann mynd af fólki í sóttvarnarbúningum hlynna að banana í mannsstærð.

Sú mynd var ein þeirra sem Brút hafði á veggjum sínum í samstarfi við Gallery Port og vakti athygli bæði gesta og starfsfólks sem ræddu hana sín á milli.
Undanfarið hefur David útfært þessa myndlíkingu enn frekar og nýtt sér efnistök endurreisnartímabilsins í málverkum af dýrlingum og píslarvottum. Niðurstaðan er einstök sýning sem býður upp á nýja sýn á karlmennsku og viðkvæmni.“
Hér má sjá vel valdar myndir frá opnuninni:


























