„Það er af og frá að ég hafi brotið lög. Ég ætla að fá að leiðrétta það hér og nú,“ sagði Guðrún á þingi í dag í umræðum um óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra. Guðrún frestaði brottflutningi Yazans um miðjan síðasta mánuð. Hún sagði í kjölfarið að hún hafi ekki talið sig hafa lagaheimild fyrir ákvörðuninni en að hún hafi tekið þessa ákvörðun að beiðni Guðmundar Inga Guðbrandssonar, ráðherra VG. Hún sagði síðar í viðtali að ákvörðunin hafi verið henni þvert um geð.
Sjá einnig: Viðurkennir að hafa ekki haft heimild til að stíga inn
Guðrún sagði á þingi í dag að samkvæmt lögum gæti hún stöðvað brottflutning ef upp kæmi réttmætur vafi um lögmæti aðgerðarinnar.
„Það var það sem ég framkvæmdi þennan örlagaríka morgun,“ sagði Guðrún og minnti á að henni höfðu á þessum tíma borist athugasemdir frá Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra, um brottvísunina en málefni fatlaðs fólks er á hans borði.
„Þá stóð ég frammi fyrir því að annaðhvort taka óafturkræfa ákvörðun að hafna þeirri beiðni. Án þess að heyra þau sjónarmið sem lágu að baki efasemdum ráðherra fatlaðs fólks. Þannig að ég ákvað að gera það,“ sagði Guðrún.
Guðmundur Ingi yrði svo sjálfur að svara því hvaða efasemdir þetta yrðu.
Guðrún svaraði þarna fyrirspurn frá Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar, um stjórnleysi á landinu og ýmsa málaflokka sem falla undir stjórn dómsmálaráðherra.
Þingmálaskráin standi
Guðrún svaraði einnig fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, um það hvernig hún ætli að bregðast við yfirlýsingum nýs formanns Vinstri grænna, Svandísar Svavarsdóttur, um að þingflokkur VG muni ekki styðja frekari breytingar á útlendingalögum. Sem og tillögu hennar um lokað búsetuúrræði fyrir hæliseitendur. Guðrún sagði í svari sínu þingmálaskrá sína standa.
„Ég hef lagt fram þingmálaskrá mína. Þar eru ýmis mál og ég hef farið gaumgæfilega yfir hana. Þau mál væru ekki á minni þingmálaskrá ef ég ætlaði mér ekki að leggja þau fram. Þannig að ég hef fullan hug á því að leggja fram þau mál sem eru á minni þingmálaskrá,“ sagði Guðrún.