Drengurinn féll niður um tvo metra ofan í vatnsbrunn við heimili sitt Í Urriðaholti í Garðabæ á föstudag. Lok brunnsins hafði færst til þegar hann gekk ofan á því. Slökkvilið aðstoðaði við að ná drengnum upp úr holunni.
Örn Tryggvi Johnsen, verkefna- og rekstrarstjóri hjá ÞG verktökum, sagði við fréttastofu í dag að starfsmenn fyrirtækisins hefðu farið út strax í morgun til að skoða frágang annarra vatnsbrunna.
Sjá einnig: Ræstu út mannskap til að kanna frágang fleiri brunna
Hann sagði að í gegnum tíðina hefði verið gengið frá svona brunnum með tvenns konar hætti, annað hvort með steyptu járni eða stálloki. Stállokin væru yfirleitt notuð þar sem brunnarnir eru í brekku eða halla eða á grassvæði. Á þessum stað hefði stállokið á brunninum verið til friðs í um níu ár.
Nú er hins vegar búið að setja steypt járnlok á brunninn.

Fara yfir frágang í verkefnum síðustu ára
Um er að ræða fallbrunna sem eru settir þar sem er mikill hæðarmunur á lóðinni. „Hallinn á lögnunum, sem eru neðanjarðar, má bara vera svo mikill. Þá eru svona fallbrunnar settir með vissu millibili til þess að leiðrétta hæðarmuninn.“
Frágangurinn á brunnunum hefði hingað til verið hugsaður praktískt með tilliti til þess hvort til dæmis væri þörf á að geta farið ofan í brunninn.
Fyrirtækið meti nú hvaða brunna sé hægt að tyrfa yfir og hverja er hægt að skipta um lok á og setja steypt járnlok á. „Við munum bregðast við með þessum hætti. Ekki bara á þessari lóð. Við förum yfir verkefni síðustu ára og förum yfir hvort það sé slík hætta til staðar,“ sagði Örn við Vísi í dag.