Skoðun

Byggjum rað­hús í Hval­fjarðar­göngum

Matthías Arngrímsson skrifar

Byggjum blokkir ofan í Sundahöfn. Setjum hraðahindrun í innsiglingu Reykjavíkurhafnar. Reisum stökkbretti í Kömbunum. Hljóma þessar tillögur skynsamlega? Nei auðvitað ekki. Það eru fleiri slæmar hugmyndir eins og t.d. þessar; Þrengjum að Reykjavíkurflugvelli með byggð í Nýja Skerjafirði og nýrri byggingu Háskólans í Reykjavík 90 metra frá brautarstefnu 13 og sleppum því að grisja tré í Öskjuhlíð. Er það skynsamlegt? Það á aldrei að gefa afslátt af flugöryggi og flugrekstraröryggi flugvalla á að vera í hámarki svo nýting innviða flugsamgangna sé sem best. Höfum líka í huga að byggingar má byggja næstum hvar sem er, en flugvellir þurfa ákveðið rými, veðurfarsskilyrði, landslag og góða staðsetningu svo þeir verði öruggir, góðir og gagnlegir í þjónustu við þjóðina.

Skoðanakönnun Bylgjunnar á dögunum leiddi í ljós að 94% landsmanna vilja hafa Reykjavíkurflugvöll á sínum stað. Það þýðir 94% landsmanna eru ekki sátt við þá hugmynd að reisa flugvöll í Hvassahrauni og ekki sátt við neitt annað en að innviðaráðherra tryggi völlinn í sessi. Það er svo hlutverk ráðherra að tryggja innviði samgangna, efla og bæta. Færsla flugvallargirðingarinnar svo hægt sé að hefja framkvæmdir við byggingar í Nýja Skerjafirði gengur þvert gegn því markmiði að tryggja Reykjavíkurflugvöll sem öruggan flugvöll enda margvísleg gögn frá ábyrgum aðilum sem benda til að flugrekstraröryggi verði stórlega skert og að flugöryggi muni versna. Skv. lögum um loftferðir nr. 80 frá 2022 er ráðherra skylt að verja flugrekstraröryggi (og flugöryggi) á vellinum. Það er gert með því að láta girðinguna í friði og ef nauðsyn krefur taka landskikann eignarnámi fyrir Reykjavíkurflugvöll til að höggva á hnútinn í eitt skipti fyrir öll. Förum eftir lögum, sýnum ábyrgð og verum skynsöm.

Í samkomulagi um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni frá 28. nóv. 2019, 5. gr. stendur:

"Aðilar eru sammála um að tryggt verði rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli á meðan undirbúningi og gerð nýs flugvallar stendur, þar með talið eðlilegt viðhald og endurnýjun mannvirkja í samræmi við ákvæði gildandi samgönguáætlunar Alþingis. Miðað verði við að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til að nýr flugvöllur er tilbúinn til notkunar. Reykjavíkurborg lýsir yfir vilja sínum til þess að tryggja nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur í samræmi við 2. mgr. 5. gr. samkomulags þessa."

Reykjavíkurborg hefur ekki enn breytt sínu skipulagi til að leggja Nýja Skerjafjörð á hilluna þó samkomulagið og lög um loftferðir kveði á um það.

Miðað við umræður og skoðanir fagmanna í flugi, vísindamanna og stjórnmálamanna verður Hvassahraunsflugvöllur ekki að veruleika næstu áratugi. Það á því ekki að hreyfa við flugvallargirðingu Reykjavíkurflugvallar. Það á strax að byggja nýja flugstöð og leyfa endurbætur og uppbyggingu til hagsbóta fyrir flugrekstur í landinu svo sómi sé að og öll aðstaða fyrir landsmenn sé til fyrirmyndar.

Stjórnmálamenn í öllum flokkum verða skilyrðislaust og tafarlaust að byggja pólitíska varnargarða um Reykjavíkurflugvöll fyrir hönd allra landsmanna þegar kemur að flugrekstraröryggi og flugöryggi.

Að lokum er rétt að birta hér tímalínu nokkurra atburða í þessari sorgarsögu sem lokun brautar 06/24 á Reykjavíkurflugvelli var og óhætt að segja að þar hafi flugöryggi, flugrekstraröryggi, fagleg vinnubrögð og heiðarleiki fokið út í veður og vind. Eftir það var áfram ráðist á völlinn:

2002 - Stytting Norður-Suður (01/19) brautarinnar um 90 metra vegna fyrirhugaðrar færslu Hringbrautar til suðurs.

20. maí 2003 - Ákveðið að færa Hringbraut til suðurs.

Maí 2006 - Færslu Hringbrautar lokið.

2012 - Gróf aðför að Fluggörðum þar sem flugskólum, miðstöð almannaflugsins, flugvélaverkstæðum og Hinu Íslenska flugsögufélagi var hótað að vera rekin burt bótalaust 2015.

2013 - Samtökin Hjartað í Vatnsmýri safna 69.791 undirskriftum fyrir áskorun til Reykjavíkurborgar og Alþingis þess efnis að öllum landsmönnum verði til framtíðar tryggð óskert flugstarfsemi í Vatnsmýri og stöðva lokun á braut 06/24.

2013 - Rifrildið um öryggisógn vegna trjágróðurs í Öskjuhlíð hefst.

2. desember 2014 - Endurskoðað deiliskipulag fyrir Hlíðarenda tekur gildi.

4. desember 2014 - Áhættumatsnefnd 9 sérfræðinga í flugmálum leyst upp eftir að áhættumatið kom út sem „Rautt“ og að lokun brautar 06/24 væri alveg óásættanleg. Nefndinni tilkynnt að verkfræðistofan EFLA hefði skilað inn betri niðurstöðu en hins vegar notað nýtt hugtak „Nothæfistími“ sem er ekki til hjá Alþjóðaflugmálastofnuninni, til að ná fram hentugri niðurstöðu.

4. júní 2015 - Samgöngustofa segir áhættumatið kalla á að það þurfi að gera sérstakt áhættumat á framkvæmd breytinganna og skoða fleiri atriði sem snerta áhrif lokunar brautar 06/24.

30. júní 2016 - Innanríkisráðherra felur Isavia að ganga frá lokun flugbrautar 06/24 þannig að „…framkvæmdin samræmist lögum og verklagi sem um lokunina gilda.“

2. febrúar 2023 - Breytt Deiliskipulag Nýja Skerjafjarðar samþykkt þrátt fyrir mikil mótmæli íbúa Skerjafjarðar og flugsamfélagsins á Reykjavíkurflugvelli og skýrslu fagmanna sem sýnir fram á skert flugrekstraröryggi og flugöryggi.

25. janúar 2024 - Tilkynnt um nýtt Rannsóknahús HR áætlað við Menntasveig 4, alls 8.400 fermetrar. Hús nr. 2 allt að 12.900 fermetrum, yrði 90 metra frá miðlínu flugbrautar 13 og mun hærra en eðlilegt gæti talist svo nálægt flugbraut.

Trén á tilteknu svæði í Öskjuhlíð hafa verið bitbein frá 2013 og þrátt fyrir tímafresti til trjáfellingar hefur Reykjavíkurborg ekki brugðist við sem skyldi, þó svo Lög um loftferðir nr. 80 frá 2022 kveði á um núgildandi skipulagsreglur flugvallarins: „sem fela í sér hæðartakmarkanir á hverskonar mannvirkjum og gróðri í nágrenni við Reykjavíkurflugvöll“.

Höfundur er flugstjóri og flugkennari og nefndarmaður Öryggisnefndar FÍA.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×