Þetta kemur fram í bréfi Hákonar Ásgeirssonar þjóðgarðsvarðar til sveitarstjórna sveitarfélaga á Snæfellsnesi sem sent var í síðasta mánuði.
Í bréfinu segir að Snæfellsjökulsþjóðgarður sé fjölsóttur áfangastaður ferðamanna og að innviðir í þjóðgarðinum hafi verið í uppbyggingu allt frá stofnun hans. Nú sé komin góð salernisaðstaða og bílastæði og flestum áningastöðum innan hans. Þá sé einnig í gangi gerð nýs bílastæðis og salernishúss við Djúpalón.
„Rekstur svæðisins hefur hingað til verið að langstærstum hluta greiddur af opinberu fé. Í ljósi ofangreinds hyggst Umhverfisstofnun hefja innheimtu þjónustugjalda í formi bílastæðagjalda í Snæfellsjökulsþjóðgarði sumarið 2025. Tekjurnar munu breyta rekstrarumhverfi þjóðgarðsins og nýtast til að standa kostnað af þjónustu. Þær munu auðvelda Umhverfisstofnun að takast á við aukið álag vegna fjölgunar gesta og óvæntra breytinga með efldri þjónustu.
Nákvæm útfærsla á gjaldheimtunni hefur ekki verið ákveðin en stefnt er að því að sett verði upp greiðslukerfi,“ segir í bréfi þjóðgarðsvarðar.
Snæfellsjökulsþjóðgarður var stofnaður árið 2001 og er hann um 183 ferkílómetrar að stærð.