„Við erum að selja fatalínu, AURTIENDE, sem kemur í takmörkuðu magni, það er hún verður í sölu á meðan við eigum vörurnar til,“ segir Guðný Camilla Aradóttir verslunarstjóri Ikea á Íslandi í svörum til Vísis vegna málsins. Hún segir hugmyndina komna frá Ikea í Tælandi þar sem vörurnar hafi verið seldar í fyrra.
„Okkur langaði að bjóða upp á þær hér sem óvænta og öðruvísi viðbót við vöruúrvalið,“ segir Guðný sem segir fyrsta skiptið sem Ikea bjóði upp á heila fatalínu. Hún rifjar upp að eitt sinn hafi þó verið til sölu bolur og peysa í tengslum við tímabundna línu með húsbúnaði.
Á vef verslunarinnar má sjá að það er ýmislegt í boði svo sem eins og taupokar, forlátir bolir með Ikea merkinu í ýmsum litum, auk svokallaðra bucket hatta. Þá er einnig hægt að fá vatnsflöskur og einn skrautlegri stuttermabol.
