Skoðun

Hundalógík ríkis­stjórnarinnar

Guðbrandur Einarsson skrifar

í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er áformað að skerða framlag ríkisins til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóðanna á næsta ári og fella það síðan alveg niður.

Framlagið sem þarna um ræðir kom til framkvæmda árið 2007 sem hluti af kjarasamningi og það var ekkert sem benti til þess þá að um tímabundið framlag væri að ræða eða að það yrði fellt niður seinna meir af óvinsælustu ríkisstjórn Íslandssögunnar.

Nú hefur þessi ríkisstjórn - sem reyndar er komin í líknandi meðferð - tekið ákvörðun um að eðlilegt og rétt sé að skerða þetta framlag sem hingað til hefur gert það verkum að ekki hefur þurft að skerða lífeyrisréttindi hjá þeim sjóðum sem bera þyngstu örorkubyrðina.

Og hvaða sjóðir eru það sem verða hvað harðast úti við þessar breytingar? Jú, það eru sjóðir fólksins sem hefur haft lægstu launin í gegnum starfsævina og á þar af leiðandi minnstu lífeyrisréttindin. Í þeirra vasa á nú að seilast.

Breiðu bökin?

Í mínum huga er það fullkomin firring hjá ríkisstjórninni að ætla að fjármagna gömul kosningaloforð Vinstri grænna með þessum hætti. Að færa fjármuni frá tekjulágum hópi til þess að bæta stöðu annars tekjulágs hóps er í mínum huga ekkert annað en hundalógík. Hana á ég erfitt með að skilja sem þátttakandi í verkalýðsbaráttu í áratugi. Eru breiðu bökin í samfélaginu allt í einu að finna í lífeyrissjóðum verkafólks?

Ólík örorkubyrði lífeyrissjóða

Íslenskir lífeyrissjóðir bera mismunandi örorkubyrði og að sjálfsögðu ekki rétt að þeir sjóðir sem hafa lægstu örorkubyrðina fái framlag úr ríkissjóði. Hins vegar er staðan þannig hjá mörgum sjóðum verkafólks að rúmlega fjórðungur greiðslna sjóðanna fer í að greiða örorkulífeyri.

Lífeyrissjóðir verða að skerða

Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar hefur komið fram að Festa lífeyrissjóður gæti þurft að skerða réttindi um allt að 7 prósent og Gildi lífeyrissjóður um tæp 6 prósent, nái þessi áform ríkisstjórnarinnar fram að ganga.

Arfavitlaus forgangsröðun

Er þetta það sem við viljum? Að seilst sé í vasa fátækasta fólksins í landinu til þess að fjármagna hallarekstur ríkissjóðs? Hvað segir svona forgangsröðun okkur? Þessi forgangsröðun segir mér alla vega að þessi ríkistjórn hefur ekki getu til að forgangsraða í þágu fólksins í landinu og þess vegna á hún að fara frá.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×