Dagur Árni Heimisson skoraði þrettán mörk og Bjarni Ófeigur Valdimarsson tíu fyrir KA í kvöld, í kærkomnum sigri.
KA-menn höfðu frumkvæðið nánast allan leikinn en HK var ekki langt undan og tókst að minnka muninn í eitt mark þegar hálf mínúta var eftir. Dagur Árni skoraði hins vegar úr næstu sókn KA og innsiglaði sigurinn, þó svo að HK næði að skora síðasta mark leiksins.
Sigurður Jefferson Guarino og Andri Þór Helgason voru markahæstir hjá HK með átta mörk hvor.
ÍR-ingar voru komnir fjórum mörkum yfir gegn Fram þegar tvær mínútur voru eftir en engu að síður tókst Frömurum að hleypa spennu í leikinn í lokin, og minnka muninn í eitt mark þegar enn voru sextán sekúndur eftir. Það dugði þó ekki til og ÍR varð því þriðja liðið til að vinna Fram á leiktíðinni, en Framarar sitja áfram í 3. sæti með átta stig.
Róbert Snær Örvarsson var markahæstur hjá ÍR með tíu mörk og Hrannar Ingi Jóhannsson kom næstur með fimm. Hjá Fram var Rúnar Kárason markahæstur með átta mörk og Eiður Rafn Valsson skoraði sex.
ÍR er nú með fimm stig og KA fjögur, en HK er neðst með þrjú stig.