Í tilkynningu segir að alls hafi borist níu umsóknir um stöðuna en fimm einstaklingar dregið umsókn sína til baka eftir að óskað var eftir nafnalista.
Eftirfarandi sóttu um starf sveitarstjóra:
- Dagmar Ýr Stefánsdóttir - Framkvæmdastjóri
- Gunnlaugur Aðalbjarnarson – Framkvæmdastjóri fjármála
- Hilmar Kristinsson - Verkefnastjóri
- Hlynur Jónsson - Lögmaður
„Dagmar er með B.A. gráðu í fjölmiðlafræði frá Háskólanum á Akureyri. Undanfarið rúmt ár hefur hún gegnt stöðu framkvæmdastjóra Austurbrúar, sem er verkefnastofa sem sinnir stoðþjónustu og vinnur að framgangi víðtækra og þverfaglegra verkefna í þágu Austurlands. Meðal málaflokka Austurbrúar eru byggðaþróun, atvinnumál, fræðslumál og rekstur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Áður starfaði Dagmar í tíu ár sem yfirmaður samskipta og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðaráli, sem forstöðumaður markaðs- og kynningarsviðs hjá Háskólanum á Akureyri í fimm ár og þar áður fréttamaður á N4 sjónvarpi Norðurlands í eitt ár. Dagmar hefur auk þess setið í ýmsum stjórnum, s.s. í heimastjórn Fljótsdalshéraðs, í fagráði Seyðisfjarðarkaupstaðar, í stjórn Stapa lífeyrissjóðs og í fagráði Uppbyggingarsjóðs Austurlands.
Dagmar er gift Guðmundi Hinriki Gústavssyni, leiðtoga hjá Alcoa Fjarðaráli og eiga þau tvo syni. Eru þau búsett á Egilsstöðum,“ segir í tilkynningunni sem fulltrúar meirihluta sveitarstjórnar Múlaþings, þær Berglind Harpa Svavarsdóttir, D-lista, og Jónína Brynjólfsdóttir B-lista skrifa undir.