Þetta kemur fram í erlendum miðlum. Payne lést á miðvikudagskvöld eftir að hafa fallið fram af svölum á hóteli sínu í Buenos Aires í Argentínu. Fljótlega fóru fregnir að berast af því að söngvarinn hefði látið öllum illum látum á herbergi sínu en upptaka af símtali starfsfólks í neyðarlínu hefur meðal annars verið birt.
Þá hafa hótelgestir einnig lýst síðustu augnablikum söngvarans. Hann er sagður hafa hegðað sér einkennilega, mætt þrígang í anddyri hótelsins og meðal annars brotið fartölvuna sína og tekið hótelgest hálstaki.
Í umfjöllun ABC um málið kemur fram að eftir bráðabirgðar krufningu á líki hans hafi fundist þó nokkur eiturlyf í blóði hans. Þar á meðal er svokallað „bleikt kókaín,“ sem inniheldur nokkrar tegundir eiturlyfja líkt og metamfetamíns, ketamíns og MDMA auk krakks, kókaíns og benzódíazepín, sem er kæruleysislyf.
Þá fannst álpípa á hótelherbergi hans. Fram kemur í umfjöllun miðilsins að lík söngvarans muni verða í Argentínu þar til rannsókn á andláti hans er lokið. Áður hefur komið fram að hann hafi látist af völdum höfuðáverka eftir fallið.