Dagur tilkynnti í dag að hann hefði óskað eftir því við uppstillingarnefnd Samfylkingarinnar í Reykjavík að skipa annað sætið á lista í Reykjavíkurkjördæmi.
Í samtali við Vísi segir Dagur að hann muni, eðli málsins samkvæmt, hætta í borgarstjórn nái hann kjöri. Hann hafi raunar þegar tilkynnt að hann muni hætta afskiptum af borgarmálunum að kjörtímabilinu loknu. Hann muni þó ekki hætta störfum í borginni fyrr úrslit kosninga liggja fyrir.
„Ég er ekki kominn á Alþingi, það er ekki búið að kjósa. Við erum að afgreiða fjármálaáætlun og fleira.“
Vill vera þingmaður allra landsmanna
Því hefur verið fleygt fram, áður en Dagur tilkynnti um framboð, að hugsanlega gæti langur ferill hans í borginni haft þau áhrif að fólk utan af landi fælist frá Samfylkingunni. Í þeim efnum þarf ekki að nefna fleiri dæmi en afstöðu Dags til Reykjavíkurflugvallar.
Dagur hefur engar áhyggjur af þessu og segist hafa verið mikið úti á landi, bæði í starfi sem læknir og á ferðalögum. Þar hafi hann talað við mikið margt fólk á landsbyggðinni, sem hafi tjáð honum að það teldi skorta jafnöflugan málsvara fyrir það og Dagur hafi verið fyrir borgarbúa.
Hljóti hann kjör á Alþingi muni hann beita sér fyrir hagsmunum síns kjördæmis en ekki síður landsins alls.
Frjálslynd félagshyggjustjórn draumastjórnin
Dagur segist telja Samfylkinguna mega búast við góðri kosningu þegar Íslendingar ganga að kjörborðinu þann 30. nóvember.
Sterkt ákall sé eftir nýrri ríkisstjórn og Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sé sá stjórnmálamaður sem fólk treysti til þess að takast á við efnahagsmálin og mynda nýja ríkisstjórn. Lykillinn að því að ný ríkisstjórn verði mynduð sé að Samfylkingin hljóti mikið fylgi.
Þá segir hann að draumaríkisstjórn hans að loknum kosningum sé frjálslynd félagshyggjustjórn en nefnir enga draumasamstarfsflokka. Fari það svo að Dagur komist á þing og Samfylkingin myndi næstu ríkisstjórn mun hann þó að öllum líkindum ekki taka sæti í henni.
„Ég geri engar kröfur um slíkt, ég nálgast þetta nýja verkefni af meiri auðmýkt en svo.“