Þetta þykir sæta tíðindum þar sem Iowa er rautt út í gegn, langt frá því að vera sveifluríki; Trump vann ríkið örugglega í síðustu tveimur kosningum.
Könnunin er framkvæmd af Ann Selzer, kanónu í skoðanakannanabransanum ytra - sem segir forskot Harris borið uppi af konum og óháðum kjósendum.
„Það getur enginn sagt að hann hann hafi séð þetta fyrir,“ sagði Selzer í viðtali við fjölmiðla í Iowa. „Hún hefur greinilega stokkið upp í kjörstöðu,“ sagði hún um Harris.
Gæti gefið vísbendingar um Miðvestrið
Flestir eru þó sammála um að könnuninni beri að taka með fyrirvara - niðurstöðurnar eru mjög á skjön við aðrar kannanir í ríkinu - en gæti gefið ákveðnar vísbendingar um það hvert önnur Miðvesturríki Bandaríkjanna, eins og til dæmis sveifluríkin Michigan og Wisconsin, stefna.
Könnunin sýnir að konur eru aðaláhrifaþátturinn í þessari breytingu í ríkinu. Sé það rétt og sé raunin víðar gæti það haft mikil áhrif á kosningarnar. Í kosningabaráttunni hefur Harris lagt áherslu á að ná til kvenkyns kjósanda á meðan bilið milli kynjanna stækkar og karlar snúa sér frekar að Trump.
Inntur eftir viðbrögðum gaf talsmaður Trumps lítið fyrir niðurstöðurnar; kallaði könnunina „hálfvitalega“.